133. löggjafarþing — 20. fundur,  3. nóv. 2006.

málefni aldraðra.

190. mál
[15:27]
Hlusta

Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er varla að um andsvar sé að ræða nema við hluta af ræðu hv. þingmanns.

Ég held að við séum alveg sammála um að nútíminn andmælir því að hjúkrunarheimili sé lítill spítali. Ég held að við séum öll sammála um það, nema kannski ákveðnir aðilar í heilbrigðisgeiranum sem vilja hafa þetta svona áfram.

En sú breyting sem fyrirsjáanleg er sem heyrist af úr herbúðum heilbrigðisráðuneytisins, að það vilji horfa á málið með öðrum hætti, er mjög skiljanleg og væri hið besta mál. En við þurfum samt sem áður að hafa vistunarmöguleika fyrir aldraða sjúka þannig að þeim sé sinnt eins og gert er í dag, að þjónustan við þá verði ekki lakari. Hins vegar er of lítill greinarmunur gerður á því hvernig þjónustuþátturinn sjálfur er og hve mikill hann er. Það er t.d. til forskrift frá landlæknisembættinu um að hver og einn sem sé á hjúkrunarheimili skuli fá fjórar til fimm klukkustundir á dag í þjónustu. Þá er hjúkrunarheimilið ekkert skilgreint frekar, þrátt fyrir að komið sé svokallað RAI-mat sem á þó að vega og meta einstaklinginn og þjónustuþörf hans.

Varðandi svo daggjöldin og greiðslur til aldraðra erum við sammála um að það form tilheyrir grárri forneskju og er barn síns tíma. Það þarf að skoða upp á nýtt. Hvers vegna á sjúkur aldraður maður sem hefur búið í heimahúsi að missa stjórnina á fjárhag sínum þótt hann fari á hjúkrunarheimili? Ég held að það skapaði sterkari kostnaðarvitund hjá fólki ef það væri sjálft þátttakandi í greiðslunni. Ég tala ekki um ef það fylgist þá líka nánar með þvotti og öðru sem á þarf að halda, en að það sé ekki einhver óþekkt tala (Forseti hringir.) og sumir ættingjar sinni þeim verkefnum en aðrir ekki.