133. löggjafarþing — 20. fundur,  3. nóv. 2006.

málefni aldraðra.

190. mál
[15:41]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Á næstunni verða byggð 200 rými í Reykjavík, eins og menn vita, á Lýsislóðinni og við Suðurlandsbraut. Þetta gengur að vísu hægar en ég hefði viljað sjá en ég er búin að vera stutt í ráðuneytinu. Við erum að ýta þessu áfram.

Í samkomulaginu sem var gert við eldri borgara í sumar er ekki kveðið á um hvar rýmin eiga að vera. Það er okkar verkefni að forgangsraða í þeim efnum miðað við þær upplýsingar sem við höfum. Það er algerlega ljóst að samkvæmt biðlistunum, sem reyndar endurspegla að mörgu leyti ekki raunveruleikann, er mesta þörfin á höfuðborgarsvæðinu. Það er bara þannig. Biðlistarnir eru, ég hef leyft mér að segja það, að hluta til falskir. Við höfum gert rannsóknir á þeim og gerum það áfram. Það sýndi sig t.d. að meira en helmingurinn sem var á biðlistanum eftir rýmum í Hafnarfirði taldi sig geta verið lengur heima með aukinni heimahjúkrun og félagslegri heimaþjónustu. Fyrri rannsóknir í Reykjavík hafa sýnt það sama. Við erum að gera núna rannsókn aftur í Reykjavík.

En þó að þeir séu langir er samt biðlisti til staðar. Það er alveg óumdeilt. Þeir eru lengstir á höfuðborgarsvæðinu. Það eru biðlistar á þó nokkrum stöðum á landsbyggðinni þar sem eru fá rými á íbúa. Þeir staðir munu fá rými. Við erum núna að raða þessu upp þannig að það verður kynnt bráðlega hvert þessi rými fara.

Það eru margir staðir á landsbyggðinni sem tala um þessi rými en það er meira umræða um að endurbyggja rými sem fyrir eru. Rýmin eru gamaldags, úr sér gengin, margir í einu rými, salerni úti á gangi, ekki inni í rýminu o.s.frv. Það er svo annað mál sem við munum fara í líka, að raða upp hvernig við viljum endurbyggja núverandi rými á landsbyggðinni þar sem ekki vantar ný rými, ekki fleiri rými, heldur að gera þau betur sem fyrir eru.