133. löggjafarþing — 20. fundur,  3. nóv. 2006.

heilbrigðisþjónusta.

272. mál
[16:41]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Eins og komið hefur fram erum við að ræða um frumvarp til laga um heilbrigðisþjónustu sem er afrakstur vinnu stórrar og mikillar nefndar sem starfað hefur allt þetta kjörtímabil, þverpólitískrar nefndar skipaðri fulltrúum allra stjórnmálaflokka og mjög margra hagsmunaaðila sem að þessum mikilvæga málaflokki koma.

Það mun vera sá sem nú situr í forsetastól, hv. þm. Jón Kristjánsson, sem skipaði þessa nefnd 8. október 2003. Hún hefur skilað þessu frumvarpi sem hér um ræðir, sem vafalaust er að mörgu leyti mjög til bóta. Í frumvarpinu er sennilega margt af því sem við erum að framkvæma í heilbrigðisþjónustunni í dag, eða ætti ég fremur að segja ætluðum að framkvæma. Tilgangurinn er vafalaust skýr hjá öllum, að veita þá bestu þjónustu sem mögulegt er en síðan er það háð fjárveitingum hvers árs. Það er auðvitað þar sem skórinn kreppir. Fjársveltistefna núverandi hæstv. ríkisstjórnar hefur mjög verið gagnrýnd enda bitnar hún verst á veiku fólki og fólki sem bíður eftir að komast í aðgerð.

Virðulegi forseti. Þegar gluggað er í frumvarpið kemur í ljós að ýmsir þættir lagatextans eru nokkuð opnari en í núgildandi lögum og fremur farið almennum orðum um þau atriði. Dæmi um slíkt er ákvæði um verkefni heilsugæslunnar í 17. gr. Einhverjir kunna vafalaust að telja að það skapi aukinn sveigjanleika í framkvæmd laganna og sé ótvíræður kostur. Hitt sjónarmiðið er að þetta sé losaraleg lagasetning og skapi hættu á hentiákvörðun stjórnvalda hverju sinni og framkvæmdin verði háð því sem ég gerði að umtalsefni í upphafi ræðu minnar, þ.e. fjárveitingum Alþingis, því sem hæstv. ríkisstjórn leggur til viðkomandi málaflokks. Það er undir ákvörðun ráðherra hverju sinni komið og dregur úr stöðugleikanum.

Ég gerði að umtalsefni hér áðan að á fjölmörgum sviðum er talað um að nánar verði kveðið á um framkvæmd í reglugerð. Í enn öðrum atriðum skal samið við ráðherra um framkvæmdina sérstaklega. Þetta atriði virðist manni mun ríkara en í núgildandi lögum. Þetta kann að vera til bóta og í samræmi við tíðarandann, að skapa möguleika til sveigjanleika og bregðast við breyttum þörfum frá einum tíma til annars. Þess vegna er brýnt, virðulegi forseti, að reglugerðir verði samdar strax. Ég ítreka að ég teldi það dæmi um góð vinnubrögð að viðkomandi nefnd þingsins, í þessu tilviki hæstv. heilbrigðis- og trygginganefnd, verði sýnd drög að reglugerðum sem ráðherra hyggst setja þegar frumvarpið verður að lögum. Það getur margt breyst í því sem ráðherra setur í reglugerð. Þess vegna ítreka ég það enn. En það á ekki eingöngu við um þetta frumvarp eða þann hæstv. ráðherra sem hér flytur mál sitt. Það á við um alla ráðherra vegna þess að oft breytist áherslan þegar reglugerðir líta dagsins ljós.

Ég gat áðan um, virðulegi forseti, varðandi 5. gr. í II. kafla þessa frumvarps, hugmyndir um sameiningu heilbrigðisstofnana. Ég tel að ráðherra hafi svarað því þannig að ég þarf ekki að kalla eftir frekari svörum við því. Ég tel að það sé komið fram en ég vona að það sé ekki eingöngu þannig að menn ætli að fresta þessu fram yfir kosningar vegna þess að það yrði óvinsælt. Nægar eru óvinsældirnar fyrir hjá ákveðnum stjórnmálaflokki og væri ekki á bætandi. En horfa verður á landakortið í leiðinni og skoða hvernig samstarfið er milli svæða.

Virðulegi forseti. Í III. kafla er rætt um forstjóra heilbrigðisstofnana. Ég tek eftir því að í þessum kafla er ekki tekið inn í menntunarviðmið heldur metur þriggja manna nefnd hæfi viðkomandi. Vafalaust yrðu reglur um það frekar settar í reglugerð, eins og ég hef gert að umtalsefni. En ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki hafi komið til tals að setja það þarna inn í og hver sé ástæðan fyrir því að svo er ekki. Það má auðvitað líka segja að heimilt sé að ráða forstjóra til bráðabirgða í fimm ár, gegn áliti ráðgjafanefndar ef ég skil það rétt.

Í 13. gr. er talað um fagráð, læknaráð og hjúkrunarráð. Ég hef ekki miklar skoðanir á því máli en spyr ráðherra hvort 13. gr. sé ekki dálítil flækjugrein. Þar er fjallað um að sé starfandi fagráð þá sé það til ráðuneytis en sé það hins vegar ekki þá sé læknaráð og hjúkrunarráð en ef meiri hluti lækna og meiri hluti hjúkrunarfræðinga á stofnun komi sér saman um það megi fella starfsemi læknaráðs og hjúkrunarráðs undir fagráð.

Bíddu við, virðulegi forseti, er þetta ekki frekar flókið? Er þetta í takt við nútímastjórnunarhætti? Nú hef ég ekkert á móti þátttöku starfsmanna í því eða að þeir hafi um það að segja hvernig viðkomandi stofnun er skipuð. Ég get sagt í framhjáhlaupi að ég sakna þess mjög sem hæstv. fyrrverandi heilbrigðisráðherra beitti sér fyrir, að leggja af allar stjórnir sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva á árum áður. (JBjarn: Þú samþykktir það samt.) Ég minnist þess nú ekki. En það var búið að fella tillögu okkar á undan ef ég man það rétt, hv. þm. Jón Bjarnason, sem kannski man betur en ég hvernig ég greiddi atkvæði á þeim árum.

Aftur að 13. gr. Getur verið hugsanlegt, og kom það til tals við samningu þessa frumvarps, að snúa þessu við, hafa fagráðið sem fyrsta kost en vilji meiri hlutinn búa til læknaráð og hjúkrunarráð verði sú leið farin? Ég ætlaði líka að spyrja: Hvað ef aðrar starfsstéttir innan heilbrigðisstofnana biðja um sérstakt fagráð, fagráð sjúkraliða, sjúkraliðaráð? Ég ítreka að að það er ekki vegna þess að ég sé á móti því að starfsfólk hafi áhrif á stjórn viðkomandi stofnunar. Ég velti því fyrir mér hvort verið er að flækja þetta of mikið og hvort þetta er í takt við allra nýjustu og bestu stjórnunarhætti.

Síðan má auðvitað segja að ef fagráðið er, eins og hér er talað um, starfandi þá sé það sett innan hverrar stofnunar og starfsreglur þess settar og staðfestar af viðkomandi forstjóra. Það er líka spurning, ef þessi leið er farin, hvort það ætti ekki að vera ein reglugerð — svo ég kalli eftir einni reglugerðinni í viðbót — sem fjallaði um það gagnvart öllum heilbrigðisstofnunum, að það sé samræmt en ekki sett af hverri stofnun fyrir sig.

Virðulegi forseti. Ég þarf ekki að orðlengja mikið meira um þetta. Málið var unnið af þverpólitískri nefnd og mér finnst hafa verið unnið faglega að samningu frumvarpsins, með nefnd fulltrúa allra stjórnmálaflokka og fjölda fólks fyrir hönd hinna ýmsu samtaka, lækna og annarra. Eins finnst mér góður bragur á að frumvarpsdrögin, eins og þau voru til 3. febrúar á þessu ári, hafi verið send út til aðila og að 101 umsögn hafi borist til þessa. Þær voru almennt jákvæðar þótt gerðar væru athugasemdir við einstök atriði. Hér kemur fram að nefndin hafi farið yfir þau og tekið tillit til sumra þátta eins og mér heyrðist hæstv. heilbrigðisráðherra skýra frá áðan varðandi 5. gr.

Þetta er að mínu mati faglega unnið og vinnubrögð sem eiga að vera til þess að skapa sem mesta sátt um frumvarpið og þau lög sem við viljum setja í þessu. Ég vona, virðulegi forseti, hins vegar það að lögin, ef samþykkt verða, verði ekki til þess að auka meira þá miðstýringaráráttu sem er í þessum geira eins og svo mörgum öðrum. Ég gerði þá áráttu að umtalsefni ekki alls fyrir löngu í athugasemdum við að launagreiðslur, útreikningar launa og annað slíkt væru dregin hingað í eitthvert miðstýrt apparat á höfuðborgarsvæðinu frá heilbrigðisstofnunum sjálfum. Ég gagnrýndi það og geri enn. Ég held að það væri betra að hafa slíkt í nærumhverfi. Ég veit ekki hvort svo mikill fjárhagslegur ávinningur hefur fengist af þeirri tilhögun. En það var sannarlega sú ríkisstjórn sem nú situr, sem stundum kennir sig við frelsi, sem gekk þar í forðabúr gömlu Sovétríkjanna til að búa til miðstýrt apparat.

Virðulegi forseti. Í lokin langar mig að nefna 1. gr., um gildissvið og markmið, sem er afar fögur. Ég vil lesa hana, með leyfi forseta:

„Lög þessi taka til skipulags heilbrigðisþjónustu. Markmið þeirra er að allir landsmenn eigi kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma eru tök á að veita til verndar andlegri, líkamlegri og félagslegri heilbrigði í samræmi við ákvæði laga þessara, lög um almannatryggingar, lög um réttindi sjúklinga og önnur lög eftir því sem við á.“

Þetta er fagurt og gott markmið sem vafalaust allir geta tekið undir og samþykkt en spurningin er hvort það muni nást. Sem stendur er ekki annað hægt en að gagnrýna núverandi ríkisstjórn fyrir framkvæmdina. Það liggur í augum uppi að fjárskortur er mikill í heilbrigðiskerfinu og margir hafa kvarta yfir því. Til dæmis fannst mér mjög merkilegt að heyra það á nýlegri ferð minni um kjördæmi mitt vegna prófkjörs þar sem ég hitti fjölda fólks, að margir kvörtuðu yfir því að komast ekki í sjálfsagðar og nauðsynlegar liðskiptaaðgerðir vegna þess að á þessum tíma ársins er fjárhagslegur kvóti heilbrigðisstofnana búinn hvað það varðar. Mér skilst að það ástand hafi orðið í ágúst eða september á þessu ári.

Maður getur rétt ímyndað sér hvernig væri að vera í sporum þeirra sem bíða eftir slíkum aðgerðum. Menn líða miklar kvalir vegna þess að ákveðnir liðir í líkamanum virka ekki þegar brjóskið hefur eyðst. Þessu hljóta ábyggilega allir þingmenn að hafa heyrt lýsingar á og að hin stórkostlega og fullkomna heilbrigðisþjónusta sem við veitum, að geta skipt um liði hvort sem er um er að ræða mjaðmaliði eða hnjáliði, skuli ekki sinna slíkum aðgerðum seinni hluta ársins vegna þess að fjárveitingar til þessa þáttar í fjölmörgum heilbrigðisstofnunum landsins eru búnar. Þar með þarf blessað fólkið sem hefur fengið greiningu á þessum sjúkdómi eða tilvísun á að fara í liðskiptaaðgerð í upphafi þessa árs að bíða. Það hefur kannski verið á biðlista í fjóra, fimm eða sex mánuði og hefði átt að komast í aðgerð á þessum tíma ársins eða í september, eins og ég sagði áðan. Það fólk þarf að þjást enn meira og bíða eftir nýju fjárhagsári íslenska ríkisins. Það er náttúrlega á skjön við hin fögru markmið sem ég las hér upp og eru í 1. gr. þessa frumvarps. Það er í raun hæstv. ríkisstjórn til skammar hvernig komið er fram við ýmsar heilbrigðisstofnanir landsins, þótt að ég ætli ekki að fara út í umræðuna um fjárhagsmál þeirra á þessu stigi. Ég tók þetta eingöngu sem dæmi, virðulegi forseti, hér að lokum.