133. löggjafarþing — 20. fundur,  3. nóv. 2006.

heilbrigðisþjónusta.

272. mál
[16:55]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp til laga um heilbrigðisþjónustu. Ég get tekið undir þau orð hv. þingmanna um undirbúning frumvarpsins þar sem var kvaddur til hópur, þ.e. fulltrúar allra þingflokka við að undirbúa samningu þess.

Heilbrigðisþjónustan er einn af grunnþáttum almannaþjónustu í landinu og staða hennar er mælikvarði á velferð okkar. Það velferðarkerfi sem við viljum byggja upp byggist einmitt og hvílir á heilbrigðisþjónustunni. Þess vegna hefði ég viljað sjá í lagafrumvarpinu kveðið á um að það yrði skylt að skilgreina þjónustustig gagnvart íbúunum vítt og breitt um landið, til að skapa þar stöðugleika bæði gagnvart íbúunum og einnig þeim sem vinna viðkomandi þjónustustörf hjá þeim stofnunum sem hlut eiga að máli.

Tökum dæmi. Hvers eigum við að vænta t.d. hjá heilbrigðisstofnunum í Húnavatnssýslum, á Hvammstanga, Blönduósi eða Patreksfirði? Getum við búist þar við frekari niðurskurði og skerðingu á þjónustu? Þetta finnst mér að eigi að vera skilgreint. Að íbúar á þeim svæðum og um allt land, hvort sem það er í Reykjavík eða annars staðar, eigi aðgang að skilgreindri þjónustu og hún verði ekki skert, nema einhverjar sérstakar aðstæður verði til þess að svo megi verða.

Við búum líka við stöðuga ásókn einkavæðingar í heilbrigðisþjónustunni. Einn angi af því er það sem hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir kom inn á í ræðu sinni, að verið er að taka á leigu húsnæði. Heilbrigðisstofnanirnar eiga stundum ekki lengur húsnæðið heldur er það byggt af öðrum aðilum og síðan tekið á leigu. Hún minntist á Heilsuverndarstöðina í Reykjavík, þetta tákn heilbrigðisþjónustunnar hér á landi, ekki bara í Reykjavík heldur um allt land, þetta gamla og fornfræga hús. Að sú leið skuli vera valin að selja það hús og vera síðan að taka annað húsnæði, ekkert hentugra, á leigu fyrir heilbrigðisþjónustuna á því svæði í Reykjavík. Svona mætti áfram telja. Einkavæðingarárátta, hvort heldur á að vista út starfsemi af heilbrigðisstofnunum til einkageirans eða að einkavæða húsnæði heilbrigðisþjónustunnar, finnst mér vera röng stefna. Mér hefði fundist að í lagafrumvarpið ætti að koma leiðbeinandi stefnumörkun hvað þetta varðar, þannig að lögð væri áhersla á að hin opinbera heilbrigðisþjónusta ætti og bæri ábyrgð á þeim tækjum, búnaði og húsnæði sem hún annars starfar í. Þetta er hluti af þeirri heild sem skapar öryggi og festu í þessari þjónustustarfsemi og einnig þjónustustigið.

Varðandi þjónustustigið vil ég benda á það sem hefur verið að gerast í mörgum heilbrigðisstofnunum, sérstaklega úti á landi, að þar er verið að vista út æ fleiri möguleika þessara stofnana til að sinna starfseminni. Tökum rannsóknirnar. Það að geta rannsakað blóð, tekið myndir og önnur slík grunnstarfsemi sem verður að vera fyrir hendi á heilbrigðisstofnunum til að þær geti þjónað þeim verkefnum sem þar koma inn, nú er tilhneigingin til að reka þetta sem sjálfstæðar rekstrareiningar inni á heilbrigðisstofnunum. Og þessar rannsóknarstofur út af fyrir sig verða að fara að skila þessum og þessum rekstrarárangri, þessi grunnþjónusta fyrir starfsemi á heilbrigðisstofnunum, og jafnvel er farið að bjóða þetta út til einkaaðila frá heilbrigðisstofnuninni sjálfri.

Allur svona samdráttur, öll svona óvissa varðandi grunnþætti í starfsemi heilbrigðisstofnunar skapar henni óvissu, skerðir möguleika hennar til að þróast, takast á við verkefni og fylgjast með tímanum. Afleiðingarnar verða þær að samkeppnis- og þjónustuhæfni heilbrigðisstofnunarinnar dregst saman, dregst aftur úr og þá kemur fjárveitingavaldið og segir: Það er alveg augljóst að æ fleiri verkefni eru að fara héðan burt og annað. Þess vegna getum við skorið niður fjárveitingar til stofnunarinnar.

Tökum dæmi um hvað miklu máli skiptir t.d. fyrir þjónustu í sjúkrahúsinu á Selfossi að vera með öfluga rannsóknarstofu sem starfar þar, ekki bara á daginn heldur er hún reiðubúin að takast á við viðfangsefni sem koma inn í stóru umdæmi. Það skiptir miklu máli að þarna sé öflug rannsóknarstarfsemi, rannsóknarstofa sem er rekin sem hluti af þjónustunni á viðkomandi sjúkrahúsi en ekki sem eitthvert sérstakt rekstrarviðfangsefni sem þurfi að bera sig eða skila þessum og þessum fjárhagslegum hagkvæmnisárangri. Sé verið að brjóta þetta niður á þennan hátt er aðeins verið að brjóta stofnanirnar niður.

Ég hef áhyggjur af því sem er að gerast á mörgum sjúkrastofnunum. Við höfum verið með sjúkrastofnanir eða heilbrigðisstofnanir, t.d. á Blönduósi, Hvammstanga, Patreksfirði og Bolungarvík sem hafa verið að lenda í því að stöðugt er verið að herða að með fjárveitingar til þeirra, sem þýðir að þá minnkar þjónustustigið sem þær stofnanir geta veitt. Ég tel þetta ranga þróun og í lögum eigi að vera yfirlýsing, vera kveðið á um þjónustustigið sem verði staðinn vörður um hjá viðkomandi stofnunum og einnig um þá þætti sem ég nefndi, þ.e. að geta stundað hinar og þessar þjónusturannsóknir vegna sjúkdóma og tilfella sem koma upp.

Íbúar úti á landi hafa brugðist við þessu með þeim hætti að gefa tæki og búnað á stofnanirnar til þess að þær standist samkeppni. Þannig þekki ég til að núna er verið að leggja áherslu á að sjúkrahús fái t.d. sneiðmyndatæki til þess að standast samkeppnina — ég nefni Akranes og Ísafjörð — til að geta staðist þessa samkeppni. Það er ekki stefnumörkun af hálfu stjórnvalda, það er ekki á stefnu þeirra að umrædd sjúkrahús hafi þessi tæki. Það er ekki á stefnuskrá þeirra að þjónustustigið á þessum heilbrigðisstofnunum hækki eða nái að sækja fram með því að vera með sneiðmyndatæki. Hvað gerist þá? Jú, íbúarnir reyna að standa vörð um sína stofnun og safna og gefa tækin. Þannig er það nú. Og það er oft og tíðum eins og íbúarnir á svæðunum séu í einhvers konar varnarstríði við stjórnvöld um þjónustustigið á heilbrigðisstofnunum vítt og breitt um landið. Þannig upplifi ég það og þannig upplifa íbúarnir það oft og tíðum.

Ég lagðist mjög gegn þeirri breytingu sem gerð var á lögunum um heilbrigðisþjónustu árin 2002–2003 að leggja niður stjórnir heilbrigðisstofnananna, leggja niður og afnema aðkomu sveitarfélaganna, aðkomu íbúanna að stjórnum heilbrigðisstofnananna á sínum svæðum. Það var þannig að viðkomandi sveitarfélög áttu fulltrúa í stjórnum heilbrigðisstofnananna og gátu þar með fylgst með og lagt fram tillögur sínar um þjónustustig, verkefni og áherslur. Þetta var fellt burt árin 2002–2003 og ég tel að það hafi verið rangt. Því það er nú svo að heilbrigðisþjónustan er fyrir fólkið en ekki fólkið fyrir heilbrigðisþjónustuna. Aðkoma stjórnvalda hvað varðar heilbrigðismálin ber allt of mikinn keim af því að þetta sé rekstur en ekki þjónusta. Það er mjög mikilvægt að menn átti sig á því að þetta er þjónusta við íbúana. Þjónustustigið úti um land og hvar sem er ræður samkeppnishæfni til búsetunnar, ræður velferðarstiginu í landinu. Þetta mætti koma enn skýrar fram í þessu lagafrumvarpi.

Það hefur verið minnst á að framkvæmd laganna skipti máli. Nú er t.d. verið að vinna að því að búa til eins konar reiknilíkan fyrir kostnaðargreiningu á verkefnum á einstökum heilbrigðisstofnunum og eftir því sem mér skilst er gengið inn í þá þróun sem er í gangi í dag og reiknilíkanið metið út frá því og af því dregnar ályktanir um hvað muni gerast á næstu árum hvað það varðar. Þær stofnanir sem hafa átt í vök að verjast á síðustu árum, nái þessi stefna fram að ganga að reikna það ástand áfram, munu því verða reiknaðar áfram niður. Í staðinn fyrir að skilgreina fyrst á viðkomandi svæðum, hvort sem það er Patreksfjörður, Bolungarvík eða Hvammstangi, og segja: Við viljum hafa þetta þjónustustig á þessu svæði og það kostar þetta mikið og við ætlum að axla þá ábyrgð svo lengi sem tök eru á. Nálgast þetta frá þeim grunni en ekki frá kostnaðargreiningargrunninum sem virðist vera allt of mikið allsráðandi og er að hefja innreið sína inn í heilbrigðiskerfið.

Forseti. Ég vildi bara draga þessi atriði sérstaklega fram. Ég tel að horfa eigi til þess að frumvarpinu verði breytt þannig að aðkoma íbúanna á viðkomandi svæðum í stjórnum, ákvarðanatöku og forgangsröðun á verkefnum heilbrigðisstofnananna verði meiri, þeir komi inn í þær stjórnir. Eins og þetta er nú eru frumvörpin fyrst og fremst send inn á sjúkrahúsin til þeirra starfsmanna sem eru þar og stjórna, gott og vel, en íbúarnir og sveitarfélögin eiga ekki með sama hætti aðgang að því að koma sjónarmiðum sínum á framfæri eins og áður þegar þau áttu aðild að stjórnum heilbrigðisstofnananna. Ég tel að úr því eigi að bæta og þeir eigi að koma aftur inn í stjórn heilbrigðisstofnananna.

Í umræðunni hefur verið minnst á hvað t.d. er að gerast varðandi bókhald og launaafgreiðslu og annað því um líkt á heilbrigðisstofnunum sem verið er að færa frá stofnunum og hingað miðlægt til Reykjavíkur. Heilbrigðisstofnanirnar eru líka mikilvægur starfsvettvangur og skaffa mikilvæga atvinnu í byggðarlögum þar sem þær eru staðsettar. Það skiptir líka máli og standa þarf vörð um þau verkefni að þau séu ekki að ástæðulausu dregin til Reykjavíkur frá stofnunum úti á landi eins og núna er allt of mikil tilhneiging til. Það ætti frekar að vera á hinn veginn að menn beittu frekar þrýstingi á að flytja verkefni frá ríkinu, frá heilbrigðisráðuneytinu til stofnananna sjálfra hvað þetta varðar í staðinn fyrir að gera það öfugt, eins og dæmi er með launa- og rekstrarmál heilbrigðisstofnananna þar sem þau eru komnar miðlægt hingað suður.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Málið fer í nefnd. Ég legg áherslu á það í lokin að setja þarf sterkari varnagla gagnvart þeirri einkavæðingartilhneigingu sem er í heilbrigðiskerfinu. Sterkari varnaglar þurfa að koma inn í lagafrumvarpið gagnvart einkavæðingunni og það þarf að koma enn sterkar fram að þjónustustigið sé skilgreint, að heilbrigðisþjónustan sé fyrst og fremst fyrir fólkið en ekki að heilbrigðisþjónustan sé rekstrarviðfangsefni. Heilbrigðisþjónustan er til fyrir fólkið og það á að vera meginmarkmið laganna og mér finnst það mega koma skýrar fram.