133. löggjafarþing — 20. fundur,  3. nóv. 2006.

heilbrigðisþjónusta.

272. mál
[17:11]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka fyrir þessa ágætu umræðu sem hefur orðið hér um frumvarpið. Ég heyri að þingmenn hafa almennt dregið fram að frumvarpið sé vel undirbúið og sumir hafa talað um að það sé óvenju vel undirbúið og hrósa undirbúningnum. Það er alveg rétt að þetta frumvarp hefur fengið mikla skoðun. Það var unnið í stórri nefnd. Allir stjórnmálaflokkar áttu þar sæti og fleiri aðilar. Frumvarpsdrögin voru send til umsagnar og 101 umsögn barst. Frumvarpið var á netinu og tekið var tillit til athugasemda þannig að það er erfitt að vinna mál betur en þetta mál hefur verið unnið. Ég tek undir það að búið er að vinna mjög faglega að undirbúningi þess. Það fær svo skoðun enn á ný í heilbrigðisnefnd Alþingis og verður væntanlega sent til umsagnar aftur til þeirra sem hafa nú þegar sent inn umsagnir þannig að það ætti að geta gengið hratt fyrir sig.

Samt hefur frumvarpið tekið breytingum síðan við fórum í gegnum alla þessa skoðun og það er meðal annars út af þessari tortryggni um sameiningu stofnana sem kom upp og búið er að gera að umtalsefni hér. En ég heyri að breytingarnar sem við höfum gert á frumvarpinu hafa mætt þeirri tortryggni. Það er ekki verið að gera kröfu um eina heilbrigðisstofnun í heilbrigðisumdæmi. Þær geta verið fleiri eins og nú er þannig að frumvarpið er ekki hvati til sameiningar, ef svo má að orði komast. Það er meira að segja búið að reisa meiri girðingar, ef hægt er að kalla það svo, í frumvarpinu en gilda í dag af því að það er kveðið á um samráð við sveitarfélög og Samband íslenskra sveitarfélaga áður en til sameiningar kemur. Slíkt samráð er ekki í dag. Það var tekið viljandi út úr lögunum á sínum tíma vegna þess að ríkið er að greiða kostnaðinn við þessa þjónustu og þá var það fellt út á sínum tíma að það ætti að vera samráð þegar um sameiningar væri ræða. En það er verið að setja það aftur inn.

Hér er búið að gera að umtalsefni ýmislegt sem ég vil reyna að bregðast við. Margt í umræðunni sem hér hefur farið fram snýst reyndar ekkert um frumvarpið. Það er nú eins og það er. Menn ræða það sem þeim liggur mest á hjarta. Varðandi skilgreininguna á háskólasjúkrahúsi því að hér var rætt um það hvort að á Akureyri gæti orðið háskólasjúkrahús líka. Samkvæmt frumvarpinu á Landspítalinn að vera Landspítali – háskólasjúkrahús og það á að vera háskólasjúkrahús. En hvað með sjúkrahúsið á Akureyri, af hverju á það að vera kennslusjúkrahús?

Þetta var rætt í nefndinni. Það er ákveðinn stigsmunur á þjónustunni sem veitt er á þessum tveimur sjúkrahúsum. Landspítalinn veitir sérfræðiþjónustu í nær öllum viðurkenndum greinum læknisfræðinnar og hjúkrunar. Það er talið að háskólasjúkrahús sem á að standa undir nafni sem háskólasjúkrahús þurfi að vera í tengslum við læknadeild. Það er nú kannski meginmunurinn. Því er eðlilegt að Landspítalinn sé háskólasjúkrahús en sjúkrahúsið á Akureyri kennslusjúkrahús. Hins vegar er hægt að hafa prófessorsstöðu við sjúkrahúsið á Akureyri ef menn telja grundvöll fyrir því. Það er ekkert sem bannar það. Gæðin þurfa bara að vera þess eðlis í viðkomandi grein.

Hér hefur verið talað svolítið um að það væri vont að hafa slegið stjórnirnar af á sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum. Ég er ekki sammála því. Ég tel að það hafi verið gott skref og ég studdi það. Ég hef reyndar talið það almennt til bóta að þar sem um ríkisstofnanir er að ræða eigi ábyrgðarsvið að vera miklu skýrari en það hefur verið um langan tíma. Ég hef meðal annars staðið að því að búið er að fella niður ákvæði um stjórnir í ýmsum stofnunum. Get ég þar nefnt Landmælingar Íslands sem dæmi, sem ég stóð að á sínum tíma. Það er óeðlilegt að forstöðumenn hafi ekki óskorað vald og ábyrgð á því sem þeir eru að sýsla með. Þegar stjórnir voru í stofnunum af þessu tagi urðu allt of mörg dæmi um alls konar togstreitu milli stjórna og forstöðumanna og það var sko ekki til bóta. Það var ekki til bóta fyrir starfsfólkið, alls ekki, þannig að ég hef verið því fylgjandi að vera ekki með stjórnir í ríkisstofnunum af þessu tagi.

Hér var líka talsvert rætt um Heilsuverndarstöðina og þá stöðu sem þar er uppi núna. Það er auðvitað ekkert í frumvarpinu sem tengist því. En allt í lagi, menn geta rætt það ef þeir vilja. Hér var gerð sala á Heilsuverndarstöðinni að umræðuefni. Þessi mál voru sem sé ekki uppi á mínu borði. Þetta átti sér stað miklu fyrr. En ég hef nú reynt að kynna mér aðdragandann eins og ég hef getað í mínum störfum. Menn eru kannski ekki nákvæmlega sammála um hvernig aðdragandinn var. En eins og ég skil þetta var mikill vilji hjá Reykjavíkurborg að selja Heilsuverndarstöðina. Þeir vildu losna úr því samkrulli sem þar var. Það eru til mikil bréfaskipti um þann vilja Reykjavíkurborgar sem hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur skrifað undir í krafti þess að vera borgarstjóri. Þetta var síðan skoðað. Heilbrigðisráðuneytið sér reyndar ekki um sölu fasteigna heldur fjármálaráðuneytið. Það var ákveðið meðal annars vegna þrýstings frá Reykjavíkurborg að setja Heilsuverndarstöðina á sölu. Að einhverju leyti skilst mér að það hafi verið gert til að reyna að verðmeta húsið, fá verðmat á það. Ég held að það hafi verið opið á sínum tíma að ríkið gæti komið inn í einhver kaup. En það barst mjög hátt tilboð frá einkaaðila úti í bæ. Í þeirri stöðu — eins og ég hef skilið þetta — þá taldi ríkið ekki stætt á því að ganga inn í það tilboð af því tilboðið var mjög hátt. Því var ákveðið að selja. Það var hins vegar ekki hagsmunamál heilbrigðisráðuneytisins, eins og ég skil það. Við sjáum ekki um sölu fasteigna. Það var enginn þrýstingur frá því ráðuneyti að selja. En þetta var staðan. Það var búið að setja húsið á sölu og það kom mjög hátt tilboð þannig að það var selt. (KLM: Þið lögðust ekki gegn því.) Fjármálaráðuneytið hefur séð um sölu af þessu tagi og þingmenn geta þá snúið sér þangað ef þeir vilja fara sérstaklega ofan í söluna á þessari fasteign af því ég þekki þetta ekki alveg í grunninn.

Í kjölfarið var farið að undirbúa flutning á Heilsuverndarstöðinni. Það lá bara fyrir. Það var búið að selja húsið. Það var auglýst eftir leiguhúsnæði og tekið húsnæði á leigu uppi í Mjóddinni. Það var talið að sú leiga væri ásættanleg. Það er líka mál sem við höfum ekki fullt vald á. Fjármálaráðuneytið hefur þar að sjálfsögðu líka miklu hlutverki að gegna.

Húsnæðið í Mjóddinni er ágætt og það er búið að undirbúa flutning og sá flutningur stendur yfir þannig að það er alveg ljóst að þessi mál voru löngu frágengin áður en ég kom að þessu ráðuneyti.

Það er líka búið að gera hér að umræðuefni heilsugæsluna í heild sinni. Hér voru þau orð látin falla að heilsugæslustarfsemi væri í uppnámi. Ég held að það sé nú orðum aukið. Heilsugæslan fer aðallega fram á heilsugæslustöðvunum sem eru allar í fullum rekstri. Starfsemin þar er í fullum gangi og ekkert við hana að athuga.

Hér var rætt um tengsl heilsugæslunnar við háskólaumhverfið. Ég vil sérstaklega benda á 15. gr. í því sambandi. Ég held að það hafi verið hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir sem gerði það líka að umtalsefni. Í 15. gr. segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins skal taka að sér kennslu heilbrigðisstétta á grundvelli samninga við háskóla og aðrar menntastofnanir, háskólasjúkrahús eða kennslusjúkrahús og stunda vísindarannsóknir á sviði heilsugæslu.“

Heilsugæslan hefur því hlutverki að gegna varðandi menntun.

Síðan var rætt hér um reglugerðir. Það er rétt að mörgum atriðum sem felast í frumvarpinu þarf að koma í framkvæmd með reglugerðum. Það er ekki búið að vinna þær reglugerðir. Það mun taka marga mánuði. Þær eru örugglega margar flóknar og starfskraftur heilbrigðisráðuneytisins er í mörgum verkefnum. En að sjálfsögðu munum við vinda okkur í að undirbúa þessar reglugerðir. Þær eru mjög mikilvægar. En þannig eru svona heildarlög og rammalöggjöf eins og við erum hér að setja og þetta mál fjallar um að mörg atriði á að fjalla um í reglugerðum.

Varðandi menntunarviðmið í 9. gr. sem hv. þm. Kristján Möller gerði að umtalsefni þá var rætt í nefndinni hvort ætti að setja inn menntunarviðmið. En ákveðið var að gera það ekki heldur treysta á það fyrirkomulag sem þarna er fjallað um, þ.e. að treysta á að það fyrirkomulag valdi því að sá hæfasti verði ráðinn í starfið. Þetta eru misjafnlega stórar stofnanir og kannski er erfitt að gera miklar kröfur um mjög sérhæfða menntun. Því var talið eðlilegt að gera það ekki sérstaklega.

Varðandi 13. gr., flækjugreinina, eins og hv. þm. Kristján Möller kallaði hana, þá var hún rædd mikið í nefndinni, er mér sagt. Hún fékk mikla umfjöllun. Það hefur verið læknaráð og hjúkrunarráð, læknaráð sérstaklega með mjög langa sögu á bak við sig þannig að ákveðið var að segja ekki að það ætti að vera bara fagráð heldur er þarna opnað fyrir alla möguleikana, þ.e. að hafa læknaráð og hjúkrunarráð og ef menn komast að þeirri niðurstöðu að betra sé að hafa fagráð þá sé það líka mögulegt. (Gripið fram í.) Þetta er mjög opið. Fagráð er nokkuð sem ég tel vera mjög æskilegt miðað við þá starfsemi sem fer fram á sjúkrahúsunum. Þar fjalla margar sérhæfðar stéttir um einstaklingana. Ef menn velja ekki fagráð sem fyrsta kost þá er sem sagt hægt að hafa hin ráðin starfandi. En ég tel æskilegt að hafa fagráð á sem flestum stöðum.

Svo var hér að lokum, virðulegi forseti, rætt aðeins um að einkavæðingartilhneigingar væru í þessu frumvarpi. Svo er alls ekki. Einkavæðing á ekki upp á pallborðið í þessu frumvarpi og ég hef ekki áhuga á að fara út í einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar þar sem átt er við einkagreiðslur og að menn eigi að borga hátt verð fyrir þjónustuna, þ.e. svona amerískt kerfi. Ég hef engan áhuga á að fara út í það. Hins vegar tel ég eðlilegt að skoða einkarekstur eins tíðkast hefur um langa hríð og ég veit að allir flokkar meira og minna styðja, einkarekstur, líka hv. þingmenn Vinstri grænna. Við erum með einkarekstur núna. Fjölmörg hjúkrunarheimili eru rekin í einkarekstri, með sem sagt ákveðnum daggjöldum. Við erum með einkarekstur hérna uppi á SÁÁ. Við gerum þjónustusamning og greiðum eftir honum. Ég var að skrifa undir samning upp á 2,5 milljarða um daginn við Náttúrulækningafélagið. Það fékk reyndar ekki eina einustu setningu í fjölmiðlum sem er nú svolítið merkilegt fyrir svona háan samning. Þar eru aðilar úti á markaði að veita þjónustu sem við greiðum fyrir með þjónustusamningi. Ég veit að þingmenn styðja það að unnt sé að nýta einkareksturinn. En þetta er alls ekki einkavæðing. Það er allt annað fyrirbæri. Ég vil bara leiðrétta það. Ekkert bendir til neinnar einkavæðingar í þessu frumvarpi. Það er langt frá því. En það er opið í því eins og verið hefur að gera þjónustusamninga við aðila um að reka ákveðna þjónustu fyrir ríkið en þá með greiðslum frá ríkinu. Það mun verða áfram til skoðunar. Þeir sem hafa tekið að sér svona verkefni hafa yfirleitt staðið sig mjög vel.

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þessa góðu og uppbyggilegu umræðu og vona að málið fái góða umfjöllun í heilbrigðisnefndinni.