133. löggjafarþing — 20. fundur,  3. nóv. 2006.

heilbrigðisþjónusta.

272. mál
[17:27]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Aðeins varðandi orð hæstv. ráðherra um sölu á Heilsuverndarstöðinni eða öðrum eignum sem heilsugæslan notar. Ég vil bara upplýsa að þó að fjármálaráðuneytið sé ábyrgt fyrir framkvæmd sölunnar þá er það jú ríkisstjórn sem leggur það til að Alþingi fjalli um það á fjárlögum og það er ekki gert nema með samþykki viðkomandi fagráðuneytis. Hæstv. ráðherra ber náttúrlega stjórnsýslulega ábyrgð á þeim ákvörðunum sem hafa verið teknar á undan henni í ráðuneytinu. Ég tel að það hafi verið rangt að selja Heilsuverndarstöðina, svo það komi fram.

Varðandi það sem ég sagði um stjórnir þá tek ég undir að framkvæmdastjóri viðkomandi heilbrigðisstofnunar eigi að vera ábyrgur fyrir rekstri hennar og ráðningu fólks. En svo er nú samkvæmt gildandi lögum og áfram er gert ráð fyrir því í þessu frumvarpi að það verði einhvers konar framkvæmdastjórn sem skipa fyrst og fremst bara æðstu starfsmenn — ef svo má kalla það — innan heilbrigðisstofnunarinnar sem á að fjalla um það hvernig taka eigi á málum innan stofnunarinnar. Gott og vel. En tengslin við íbúana þar sem viðkomandi heilbrigðisstofnun starfar skortir. Þar er ég ekki að tala um bein rekstrarleg tengsl út frá gefnum verkefnum heldur ber að tryggja að stefnumörkun varðandi þjónustu heilbrigðisstofnana sé gerð í nánu samráði við íbúana og að tryggt sé með þessari aðkomu að þeir eigi þar aðila að stjórn.

Sveitarfélögin eiga að leggja áfram heilmikið til eins og lóð og gatnagerðargjöld (Forseti hringir.) og annað því um líkt. En hér er ég fyrst og fremst að tala um þjónustustigið. (Forseti hringir.)