133. löggjafarþing — 20. fundur,  3. nóv. 2006.

heilbrigðisþjónusta.

272. mál
[17:31]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég legg áherslu á að heilbrigðisþjónustan er fyrir fólkið og tengslin við íbúana, fólkið sem á að njóta hennar, verða seint of mikil og okkur ber að standa vörð um slík náin tengsl.

Varðandi einkavæðinguna sem hæstv. ráðherra kom inn á, þá er það sitt hvað hvort gerður er samningur eða samningar við félagssamtök sem eru skilgreind á einhverjum ákveðnum vettvangi og eru ekki með þjónustuna í arðsemisskyni, ellegar hvort það er einkafyrirtæki eða fyrirtæki sem rekur þjónustuna í arðsemisskyni. Tökum t.d. Sóltún, sem ríkið gerði samning við. Sú stofnum er nánast alfarið rekin í arðsemisskyni og þar er krafist ákveðinnar arðsemi í rekstrinum í samningum við ríkið. Því miður eru agnúarnir einmitt þarna, vandamálin innan heilbrigðisþjónustunnar, það er þessi togstreita um einkavæðingu (Forseti hringir.) þar sem einstaklingar taka að sér hluta af slíkri þjónustu og almennum (Forseti hringir.) opinberum rekstri. Um þetta verður að standa vörð, herra forseti.