133. löggjafarþing — 20. fundur,  3. nóv. 2006.

heilbrigðisþjónusta.

272. mál
[17:34]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra gerði að umtalsefni orð mín um aðför að Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, sem er verulegt áhyggjuefni. Mér er alveg fullkomlega kunnugt um að það gerðist ekki á hennar valdatíma í ráðuneytinu, enda er hæstv. ráðherra tiltölulega nýkomin í það embætti, en það voru fyrirrennarar hennar sem komu því þannig fyrir að Heilsuverndarstöðin var seld. Ég tel þetta vera skylt því máli sem við erum að ræða því að heilbrigðisþjónustan undir Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins er í uppnámi eins og ég rakti í ræðu minni áðan, bæði Miðstöð heilsuverndar barna og sömuleiðis Miðstöð mæðraverndar. Nú er þjónustan fyrir „þungaðar konur í áhættu“, eins og það kallast, eða konur með meðgönguvanda, ekki lengur undir Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins eða undir sömu stjórn og hún var þegar Heilsuverndarstöðin var og hét. Sá þáttur hefur verið tekinn út úr þjónustunni og það er verið að hefja móttöku kvenna með meðgönguvanda á Landspítala – háskólasjúkrahúsi við mjög þröngan kost, er mér sagt. Sömuleiðis er verið að dreifa þjónustunni, það er verið að senda hluta af henni í bráðabirgðahúsnæði í Glæsibæ o.s.frv. eins og ég rakti hér.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hefur hún ekki áhyggjur af þeirri þróun sem hefur orðið í kjölfar þess að Heilsuverndarstöðin var seld og hefur hún reynt að fá það húsnæði á leigu, þ.e. Heilsuverndarstöðina, eða kaupa hana til baka til þess að leysa þann vanda og það uppnám sem Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins er í eftir að hún var seld?