133. löggjafarþing — 20. fundur,  3. nóv. 2006.

heilbrigðisþjónusta.

272. mál
[17:38]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað veit hæstv. ráðherra hvað ég er að tala um. Ég er að tala um hina nýju stofnun, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, sem er yfirstofnun yfir heilsugæslustöðvarnar. Auðvitað eru margar heilsugæslustöðvar og flestar sem ganga ágætlega. En yfirstofnunin og öll sú þjónusta sem var í Heilsuverndarstöðinni, eins og Miðstöð heilsuverndar barna og Miðstöð mæðraverndar, sú þjónusta er í uppnámi. Húsnæðið í Mjóddinni sem tekið var á leigu er óviðunandi, að því er mér er sagt af þeim sem helst þekkja þetta.

Varðandi það að þjónustan sé miðsvæðis og kennsluhlutverk heilsugæslunnar, sem ég gerði líka að umtalsefni, verður að segjast eins og er að auðvitað er búið að færa þennan hluta heilsugæslunnar, sem hún ætti að sinna, langt frá háskólanum. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hefur hún ekki áhyggjur af því hvaða áhrif salan á Heilsuverndarstöðinni hefur haft á þá þjónustu sem þar er innan dyra og mun hæstv. ráðherra skoða þetta mál og ráða bót á því ástandi sem þar er innan dyra?