133. löggjafarþing — 20. fundur,  3. nóv. 2006.

heilbrigðisþjónusta.

272. mál
[17:40]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef ekki haft tök á því að fylgjast með allri þeirri umræðu sem hefur farið fram um þetta mál og því kann að vera að hæstv. ráðherra sé búinn að svara því sem mig langar að víkja að í þessu andsvari varðandi sameiningu innan heilbrigðisumdæma. Ég sé að ráðherrann fær ansi mikið vald samkvæmt þessum greinum, þ.e. 5. og 6. gr., og getur sett skiptinguna með reglugerð o.s.frv. varðandi almenna heilbrigðisþjónustu.

Mín spurning er einfaldlega sú og ég velti því fyrir mér, hæstv. forseti — þó að hér sé reyndar sagt að samstarf skuli haft við hlutaðeigandi sveitarfélög og Samband íslenskra sveitarfélaga, og allt gott um það — hvort einnig verði tekið tillit til aðstæðna á landsvæðum og hvort ráðherra hafi gert sér í hugarlund einhverjar verulegar breytingar á því fyrirkomulagi sem er í dag. Ég er aðallega að tala um þegar vegalengdir á milli staða eru kannski vel yfir 100 kílómetra og þegar færð er þannig að það er ekki hægt að koma við eðlilegum samgöngum á milli svæða. Ég nefni t.d. Vestfirði þar sem vetrarsamgöngur hindra þetta einfaldlega.

Nú kann að vera að hæstv. ráðherra hafi þegar svarað þessum vangaveltum mínum en um þetta vildi ég aðallega spyrja. Ég hef af því áhyggjur ef einhver sérstök stefnumótun er um að þjappa þessu saman sem gæti leitt til þess að ekki yrði unnt að veita þjónustuna og ekki haft nægilegt samráð í stjórninni.