133. löggjafarþing — 20. fundur,  3. nóv. 2006.

embætti landlæknis.

273. mál
[17:48]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til nýrra laga um embætti landlæknis.

Frumvarp þetta er lagt fram samhliða frumvarpi til nýrra laga um heilbrigðisþjónustu sem ég hef mælt fyrir. Er frumvarpið eins og hið fyrrnefnda samið af nefnd sem skipuð var af heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra í október árið 2003 til að endurskoða lög um heilbrigðisþjónustu.

Grundvallarákvæði gildandi laga um embætti landlæknis og verkefni hans er að finna í núgildandi lögum um heilbrigðisþjónustu. Ákvæði um eftirlit landlæknis með heilbrigðisstéttum eru í læknalögum, í lögum um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta og öðrum sérlögum um heilbrigðisstéttir. Þá eru landlækni falin ýmis verkefni í öðrum lögum. Með frumvarpinu er lagt til að helstu ákvæði laga um verkefni landlæknis verði útfærð nánar og felld í sérstakan lagabálk um embætti landlæknis.

Þótt embætti landlæknis standi á gömlum merg eru ákvæði núgildandi laga um embættið og hlutverk þess tiltölulega fábrotin. Hlutverk landlæknis samkvæmt gildandi lögum er í grófum dráttum þríþætt, þ.e. ráðgjafarhlutverk, eftirlitshlutverk og upplýsingasöfnum og úrvinnsla þeirra. Á þessu verða engar breytingar með frumvarpinu. Tilgangur þess er fyrst og fremst að kveða skýrar á um þessi hlutverk og verkefni sem þeim eru tengd, skerpa á hlutverki embættisins sem eftirlits- og stjórnsýslustofnunar á sviði heilbrigðismála og fella helstu ákvæði um embættið í ein lög.

Ráðgjafarhlutverk landlæknis samkvæmt núgildandi lögum felst m.a. í ráðgjöf til ráðherra og ríkisstjórnar um allt er varðar heilbrigðismál. Í frumvarpinu er lagt til að þetta ráðgjafarhlutverk landlæknis verði aukið með þeim hætti að honum beri jafnframt að veita öðrum stjórnvöldum, svo sem ráðuneytum og ríkisstofnunum eftir því sem við á og tilefni gefst til, ráðgjöf um heilbrigðismál. Þá ber honum jafnframt samkvæmt frumvarpinu að veita heilbrigðisstarfsfólki og almenningi ráðgjöf um heilbrigðismál. Ekki er kveðið á um slíkt í núgildandi lögum en landlæknir hefur engu að síður veitt heilbrigðisstarfsmönnum faglega ráðgjöf og leiðbeiningar í formi ýmiss konar tilmæla og klínískra leiðbeininga auk þess sem hann hefur gefið út leiðbeiningar til almennings um heilbrigðismál.

Ráðgjafarhlutverk landlæknis er nátengt eftirlitshlutverki hans með heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstarfsmönnum og hlutverki hans við söfnun upplýsinga um heilbrigðisþjónustu. Við framkvæmd þeirra starfa verður til mikil þekking á heilbrigðisþjónustunni sem mikilvægt er að heilbrigðisráðherra og önnur stjórnvöld eigi aðgang að. Þá er ekki síður mikilvægt að landlæknir miðli upplýsingum til heilbrigðisstarfsmanna og almennings þegar ástæða er til. Eftir því sem heilbrigðisþjónustan hefur orðið flóknari og stéttum heilbrigðisstarfsmanna hefur fjölgað hefur þörfin fyrir virkt eftirlit landlæknis aukist. Hlutverk landlæknisembættisins sem eftirlitsstofnunar á sviði heilbrigðismála hefur því fengið aukið vægi á undanförnum árum. Megininntak eftirlitshlutverks landlæknis samkvæmt frumvarpinu er þó óbreytt frá núgildandi lögum. Ákvæði sem að þessu lúta hafa hins vegar verið útfærð nánar.

Þá er í frumvarpinu mælt fyrir um útgáfu reglugerða um faglegar lágmarkskröfur til reksturs heilbrigðisþjónustu á einstökum sviðum en með setningu slíkra reglugerða verður lagður styrkari grundvöllur undir faglegt eftirlit landlæknis. Þá er óheimilt samkvæmt frumvarpinu að hefja rekstur heilbrigðisþjónustu nema landlæknir hafi áður tekið út og staðfest að reksturinn uppfylli þær faglegu kröfur sem gerðar eru til heilbrigðisþjónustu á viðkomandi sviði.

Annar þáttur í eftirlitshlutverki landlæknis lýtur að umfjöllun hans um kvartanir og kærur er varða samskipti almennings og heilbrigðisþjónustunnar. Í frumvarpinu eru heimildir almennings til að bera fram slíkar kvartanir og kærur skilgreindar nánar og kveðið er ítarlega á um meðferð og úrlausn slíkra mála hjá embættinu. Miða þær breytingar að því að styrkja lagagrundvöll umfjöllunar landlæknis og samræma málsmeðferð. Í frumvarpinu er kveðið á um skyldur heilbrigðisstofnana og heilbrigðisstarfsmanna til að skrá upplýsingar um óvænt atvik sem verða við veitingu heilbrigðisþjónustu og tilkynna þau til landlæknis. Ákvæði svipaðs efnis er nú í læknalögum en það hefur ekki þótt nægilega skýrt. Mikilvægt er að atvikaskráningu af þessu tagi sé vel sinnt enda er hún forsenda þess að heildaryfirsýn fáist yfir þau atvik sem betur mega fara við veitingu þjónustunnar. Þá er atvikaskráningin mikilvæg við almennt eftirlit landlæknis með heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstarfsmönnum.

Í frumvarpinu er mælt fyrir um hlutverk landlæknis og gerð áætlana um gæðaþróun innan heilbrigðisþjónustunnar og um gæða- og árangursmælingar landlæknis og er það nýmæli í lögum. Gert er ráð fyrir að landlæknir meti gæði og árangur heilbrigðisþjónustunnar samkvæmt tilteknum mælikvörðum og að samanburðarhæfar niðurstöður gæða- og árangsursmælinga séu birtar í heilbrigðisskýrslum. Tilgangurinn með birtingu slíkra gæða- og árangursmælinga er að veita heilbrigðisstarfsmönnum og heilbrigðisstofnunum aðhald við veitingu heilbrigðisþjónustu, auka gæðavitund þeirra og skapa samkeppni á milli þeirra um árangur og gæði.

Ákvæði núgildandi laga um upplýsingasöfnun landlæknis og skýrslugerð eru mjög fábrotin. Þannig segir einfaldlega í lögum um heilbrigðisþjónustu að landlæknir skipuleggi skýrslugerð heilbrigðisstarfsfólks og heilbrigðisstofnana og innheimti þær. Þetta hlutverk landlæknis er þó viðamikið og að sama skapi viðkvæmt enda teljast heilsufarsupplýsingar um einstaklinga til viðkvæmra persónuupplýsinga. Í frumvarpinu er lagt til að lögfest verði mun ítarlegra ákvæði um þetta hlutverk landlæknis, þ.e. um þær heilbrigðisskrár sem landlækni er heimilt að halda og um útgáfu heilbrigðisskýrslna. Miða ákvæði frumvarpsins um þetta efni annars vegar að því að styrkja heimildir landlæknis til að safna upplýsingum um heilbrigðismál í þeim tilgangi að afla þekkingar um heilsufar og heilbrigðisþjónustu, hafa eftirlit með heilsufari og heilbrigðisþjónustu, meta árangur þjónustunnar og gera áætlanir um gæðaþróun í heilbrigðisþjónustu og hins vegar að tryggja persónuvernd þeirra einstaklinga sem upplýsingarnar fjalla um.

Reynsla undanfarinna ára og áratuga hefur leitt í ljós að heilbrigðisskrár á landsvísu hafa ómetanlegt gildi fyrir heilbrigðisyfirvöld til að meta hvaða þættir hafa áhrif á heilsu og til að gera langtímaáætlanir um heilbrigðisþjónustu. Slíkar skrár eru þegar til hér á landi á einstökum sviðum, svo sem krabbameinsskrá, skrár Hjartaverndar, skrá um notkun lyfja og dánarmeinaskrá, sem haldin er af Hagstofunni. Umræddar skrár eiga það sameiginlegt að vera grundvöllur reglulegrar tölfræðivinnslu sem hefur m.a. þann tilgang að sjá viðeigandi stjórnvöldum fyrir nauðsynlegum upplýsingum til skipulagningar og áætlanagerðar og að veita tækifæri til samanburðar milli tímabila og á milli landa. Þá eru þær undirstaða vöktunar á tíðni mismunandi sjúkdóma og meðferðar. Skrárnar skapa einnig grundvöll fyrir vísindarannsóknir, t.d. á orsökum sjúkdóma, einkum faraldsfræðilegar rannsóknir. Loks eru þær mikilvæg undirstaða þess að tryggja gæði og árangur heilbrigðisþjónustu. Nauðsynlegt er því að kveða skýrt á um heimildir landlæknis til að halda slíkar skrár og hvernig öryggi persónuupplýsinga skuli tryggt.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir meginatriðum frumvarpsins og helstu breytingum frá núgildandi ákvæðum laga sem fjalla um embætti landlæknis. Ég leyfi mér því að leggja til að frumvarpinu verði vísað til hv. heilbrigðis- og trygginganefndar og til 2. umr.