133. löggjafarþing — 20. fundur,  3. nóv. 2006.

embætti landlæknis.

273. mál
[17:59]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð bara að vísa aftur til þess að hér er orðið til eitt viðamesta embætti landsins og ég geri ekki athugasemdir þó að það sé styrkt og eflt í eftirlitshlutverki sínu og þjónustuhlutverki. Þetta er mikilvægt embætti í almannavörnum, sóttvörnum o.s.frv. og líka eftirlitsembætti gagnvart þjónustu og þjónustustigi, bæði sem veitt er af opinberum stofnunum en líka einkaaðilum sem samningar hafa verið gerðir við.

Ég hélt að það væri markviss stefna að færa þjónustuna sem næst fólkinu og það er býsna langt fyrir íbúa landsbyggðarinnar að koma sjónarmiðum sínum á framfæri í höfuðborginni, hvort sem þeir búa á Ísafirði eða austur á Raufarhöfn. Þetta hlutverk héraðslækna á sínum tíma í breyttri mynd tel ég alveg fyllilega ástæðu til að skoða. Þetta landlæknisembætti er ekki til fyrir sjálft sig, heldur fyrir fólkið í landinu hvar sem það býr og þá þjónustu sem þar er veitt eða það á að eiga aðgang að.

Ég hvet til þess að í nefnd verði skoðað hvernig þetta embætti getur þá þjónustað og staðið undir þeim kröfum og væntingum sem um það eru settar í þessu lagafrumvarpi.