133. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2006.

nýtt þjóðhagsmat Seðlabankans.

[15:10]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það sem Seðlabankinn segir er að skammtímaverðbólguhorfur séu heldur skárri en þó engu að síður óviðunandi. Það er vegna þess að Seðlabankinn spáði hækkandi verðbólgu í sumar en spáir núna í raun og veru óbreyttri verðbólgu, þ.e. 7–8% á næstu missirum. Seðlabankinn vekur hins vegar athygli á því að viðskiptahallinn er enn þá hrikalegri en nokkru sinni fyrr hefur verið spáð. Það stefnir í vel á þriðja hundrað milljarða kr. viðskiptahalla á þessu ári. Seðlabankinn dregur athygli að því að Ísland komi til með að eiga mikið undir velvilja hins alþjóðlega fjármálamarkaðar á næstu mánuðum til að fjármagna þennan halla, og þjóðarbúið verður viðkvæmara en nokkru sinni fyrr fyrir sveiflum í þeim efnum og umtali, hvort sem það byggir á réttum eða röngum staðreyndum um íslenskt efnahagslíf.

Atburðir fyrstu mánaða þessa árs ættu að vera mönnum í fersku minni í þeim efnum, segir Seðlabankinn, og mér finnst hæstv. forsætisráðherra skauta létt yfir það að með því einu að vísa til þess að tímabundið virðist heldur vera að draga úr þenslu séu hlutirnir í lagi. Ætlar ríkisstjórnin að halda óbreyttri siglingu hvað varðar skattalækkanir og undirbúning (Forseti hringir.) stóriðjuframkvæmda þó að það sé einmitt það sem Seðlabankinn varar við?