133. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2006.

nýtt þjóðhagsmat Seðlabankans.

[15:13]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég mundi segja að eiginlega eina glætan í því sem ríkisstjórnin hefur verið að gera sé ákvörðun um að styrkja gjaldeyrisvaraforða Seðlabankans, og þótt fyrr hefði verið. Það er dýrara að kaupa inn á hann núna en hefði þurft að vera ef Seðlabankinn hefði ekki, og ríkisstjórnin, ákveðið að hætta gjaldeyriskaupum á sínum tíma fyrir nokkrum missirum.

Ríkissjóður er eitt og þjóðarbúið íslenska er annað. Þegar heildarskuldir þjóðarbúsins út á við eru skoðaðar eru þær meiri en nokkru sinni fyrr. Hreinar erlendar skuldir íslenska þjóðarbúsins nálgast nú 170% af landsframleiðslu og eru með því allra hæsta sem þekkist. Þó að bankarnir hafi getað, m.a. með því að róa á ný mið, fjármagnað skammtímaþörf sína með dýrari lánum segir það ekki að fram undan geti ekki verið mikill ólgusjór í þessum efnum. Það er ástæða til að hafa af því miklar áhyggjur, virðulegur forseti, að enn örlar ekki á því að ríkisstjórnin annars vegar og Seðlabankinn hins vegar séu að ná neinum takti í því að ná tökum á jafnvægisleysinu í íslenska hagkerfinu.