133. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2006.

nýtt þjóðhagsmat Seðlabankans.

[15:14]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Þessi síðasta fullyrðing hv. ræðumanns er bara einfaldlega röng. Ríkisstjórnin hefur t.d. með því fjárlagafrumvarpi sem nú liggur fyrir þinginu sýnt það og sannað að henni er full alvara hvað varðar þau atriði sem að henni snúa í baráttunni við verðbólguna. Við settum hér bann á opinberar framkvæmdir á nýjum útboðum í nokkra mánuði í sumar. Það vantaði ekki að það væri gagnrýnt af stjórnarandstöðunni hvers lags svívirða það væri. Hv. þm. Kristján Möller — ég óska honum til hamingju með árangur sinn í prófkjörinu — skrifaði t.d. digrar greinar í blöðin um þá svívirðu að við skyldum hafa frestað framkvæmdum um nokkra mánuði. Það hafði sín áhrif. Það vantaði ekki að það væri gagnrýnt og því væri mótmælt, og nú er því mótmælt að því banni skuli aflétt. Vilja menn ekki reyna einu sinni, þótt ekki væri nema einu sinni, að vera sjálfum sér samkvæmir? (Gripið fram í.)