133. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2006.

upplýsingar til þingmanna.

[15:15]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra um það hvort hann telji það vera hlutverk ríkisstjórnar að meina fulltrúum opinberra stofnana að veita þingmönnum og Alþingi upplýsingar um stöðu stofnananna sem þeir eru í forsvari fyrir.

Forsaga þessarar fyrirspurnar er sú að ég var að kynna mér hvaða afleiðingar hálfs milljarðs skuldahali og fyrirsjáanlegur milljarðs halli hefði á rekstur Landspítalans á næstunni. Spítalinn hefur verið rekinn á óbreyttum raunfjárframlögum undanfarin sex ár og er ætlað að gera það áfram samkvæmt tillögum ríkisstjórnarinnar þótt íbúum hafi fjölgað um 7%, öldruðum yfir áttrætt um 25% og aðgerðum og komum á spítalann fjölgað geysilega, að því ógleymdu að starfsfólkið hefur unnið þrekvirki við þessar aðstæður. Þá fæ ég þær upplýsingar að það verði að segja upp að minnsta kosti 300 manns á næstunni og skerða almenna spítalaþjónustu við höfuðborgarbúa að öllu óbreyttu. Sem sagt, skert þjónusta og uppsagnir vofa yfir 300 manns.

En hvers vegna eru Alþingi og þingmenn ekki upplýst um þetta alvarlega ástand? Jú, ástæðan er sú að ríkisstjórnin sendi út fyrirmæli með ríkisstjórnarsamþykkt þann 6. október til ráðuneyta um að stofnanir leiti ekki beint til Alþingis með mál sem þetta. Fyrirmæli frá ríkisstjórninni um að það megi ekki upplýsa þingið, eins og sjá má í þessu bréfi hér.

Þetta er ótrúleg framkoma við Alþingi og þingmenn, kjörna fulltrúa almennings. Með þessu er ríkisstjórnin að gera okkur þingmönnum ókleift að sinna lögbundnum skyldum okkar. Ég verð að segja að mér er gróflega misboðið.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Telur hann eðlilegt og löglegt að framkvæmdarvaldið beiti svona vinnubrögðum gagnvart löggjafanum? Hvað gengur ríkisstjórninni til með svona háttalagi?