133. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2006.

erlent vinnuafl og innflytjendur.

[15:27]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Magnús Stefánsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil biðja hv. þingmann að gæta orða sinna og fara rétt með. Þessir starfshópar sem ég nefndi hér og fór yfir, annars vegar innflytjendaráð og hins vegar nefndin sem er að fjalla um atvinnumál útlendinga á íslenskum vinnumarkaði, hafa unnið mjög mikið starf. Það er ekki rétt að ekkert hafi gerst í því. Hins vegar liggur ekki fyrir niðurstaða úr því starfi enn þá.

Ég vildi bara taka það mjög skýrt fram hér að sú vinna hefur verið í fullum gangi í margar vikur og mánuði. Ég vonast til að sú niðurstaða liggi fyrir sem allra fyrst. Ég er sammála hv. þingmanni í því að við þurfum auðvitað að ljúka því máli sem fyrst.