133. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2006.

lækkun virðisaukaskatts á geisladiskum.

[15:33]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Hæstv. fjármálaráðherra hefur öfundsverðan hæfileika til að tala eins og véfréttin í Delfí. Það var í rauninni alveg ómögulegt að skilja neitt á hæstv. ráðherra um áform hans í þessu. En vegna þess að hann ber réttlætið í hjarta, sagði hann, þó að það væri alveg ljóst að með því að lækka virðisaukaskatt á bókum mundi samkeppnisstaða geisladiska og íslenskrar tónlistar skekkjast enn meira, er þá ekki verið, frú forseti, að rjúfa jafnræðið sem okkur er svo annt um?

Hæstv. ráðherra hefur líka sýnt lofsverðan hæfileika til þess að fara að stefnu Samfylkingarinnar. Hann hefur barist fyrir því að lækka virðisaukaskatt á bókum, eins og Samfylkingin hefur gert og reyndar Framsóknarflokkurinn líka, og ég fagna því framtaki ríkisstjórnarinnar. En ég spyr hæstv. ráðherra: Ef hann ætlar að láta tónlistina bera skarðan hlut frá borði, er hann þá ekki að brjóta jafnræðisregluna sem okkur er öllum svo annt um?