133. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2006.

lækkun virðisaukaskatts á geisladiskum.

[15:34]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Ekki er alveg víst að það væri verið að brjóta jafnræðisregluna en eins og ég sagði áðan hafa verið færð fyrir því rök að það væri verið að breyta þessari samkeppnisstöðu. Ég hef fallist á að skoða það. Ég held hins vegar að það sé eðli málsins samkvæmt að á meðan svona mál eru í skoðun í fjármálaráðuneytinu verði fjármálaráðherrann að tala eins og véfréttin í Delfí því að fyrr en niðurstaðan liggur fyrir getur hann ekki kveðið upp úr með það hvað lagt verður til.

Við verðum hins vegar að virða það við hv. þingmann að hann hefur greinilega mikinn áhuga á þessu máli og hann er fimur í rökræðum og kann að (Gripið fram í: Þú ert slæmur í …) leggja málin vel og skynsamlega fyrir hér í þinginu. Þrátt fyrir það verður hann, eins og aðrir hv. þingmenn, að bíða eftir því að við (Forseti hringir.) leggjum fram frumvarpið.