133. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2006.

tekjuskattur.

22. mál
[16:03]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég nefndi var hvort ekki ætti að skoða breytingu á viðmiðunum, að miða þetta út frá breytingum á vísitölu en ekki út frá þeim sveiflum sem eru í fasteignamatinu. Ég held að hjá því fólki sem varð fyrir skerðingu núna, kannski um 200 þús. kr., það munar um það, að þótt eign þeirra hafi hækkað í einhvern tíma þá hefur ekkert annað breyst í stöðunni hjá því, (Gripið fram í.) eignin hefur hækkað eitthvað tímabundið en ekkert annað í fjárhagsstöðunni hefur breyst. Það verður að horfa á þetta í samhengi. Það munar um það fyrir lágtekjufólk, með kannski um 100–250 þús. kr. á mánuði, að það sé svipt um 200 þús. kr. sem eru heil mánaðarlaun þess. Þetta skiptir því vissulega miklu máli. Og eins og ég kom inn á áðan þá er það líka svo að það er alls ekki verið að leiðrétta þetta að fullu fyrir þetta fólk miðað við þá skerðingu sem það varð fyrir út af fasteignamatinu vegna þess að þar er farin meðaltalsleiðin og einungis miðað við 25% hækkun á fasteignamati þegar fasteignamatið hefur víða hækkað um allt að 35%. Ég gæti trúað að bara það að fara þessa meðaltalsleið gæti munað töluverðu, kannski einhverjum tugum þúsunda t.d. fyrir einhverja á Reykjavíkursvæðinu þar sem fasteignamatið hefur hækkað hvað mest.