133. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2006.

tekjuskattur.

22. mál
[16:24]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var alveg hárrétt sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon vék hér að. Þessi mál lágu öll fyrir. Þau voru lögð fyrir á síðastliðnu vori í umræðum í þinginu með útreiknuðum dæmum, eins og þingmaðurinn vitnaði réttilega til, um hvað mundi gerast varðandi vaxtabæturnar. Þar af leiðandi er nokkuð furðulegt að sjá yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að þegar þetta hafi komið í ljós í ágúst síðastliðnum — eins og það hafi komið öllum mjög á óvart að þetta gæti gerst. Það var auðvitað ekki þannig, þetta lá fyrir.

Það eru fleiri hliðar á þessu máli varðandi fasteignagjöldin sem ég vildi aðeins víkja að þó að það snúi ekki beint að vaxtabótunum. Það er þegar fasteignagjöld hækka verulega milli ára hjá öllum landsmönnum, misjafnt samt eftir landsvæðum, og þegar fasteignaverð keyrir langt fram úr launaþróun hjá ákveðnum hópum. Ég tala nú ekki um hópum eins og eldri borgurum og öryrkjum sem hafa setið eftir varðandi uppbætur á sínar bætur og þegar skattastefna ríkisstjórnarinnar hefur svo ofan í kaupið komið inn í álagningu á tekjur þessara einstaklinga með öðrum hætti en menn höfðu gert ráð fyrir og þyngri. En það liggur auðvitað fyrir að þegar fasteignaverð hækkar um kannski 30–35% og kaupgjald innan ársins situr eftir, ég tala nú ekki um bæturnar, lendir greiðslubyrðin af fullum þunga á hópum sem fá ekki tekjur á móti. Þetta vildi ég láta koma fram vegna þess að þetta er hluti af málinu þó að það snúi ekki beint að vaxtabótunum.