133. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2006.

tekjuskattur.

22. mál
[16:37]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Það hefur verið haft á orði að umræðan væri dapurleg. Það getur vel verið. (SJS: Það er framganga ríkisstjórnarinnar.) Framganga ríkisstjórnarinnar, já. Hins vegar verð ég að segja að mér finnst umræðan vera ósanngjörn. Það er talað um að verkalýðshreyfingin hafi knúið fram, ríkisstjórnin hafi verið kúskuð til að gera einhverja hluti, en í sömu ræðunni vitnar hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon til orða ráðherrans, væntanlega þá þegar hann er að tala um hina dapurlegu framgöngu ríkisstjórnarinnar.

Það liggur fyrir að ég hef alltaf tekið jákvætt undir það að ef breytingar yrðu sem hefðu einhver veruleg áhrif á útgreiddar vaxtabætur væri ég tilbúinn að skoða hvernig hægt væri að leiðrétta það. Mér finnst því svolítið eins og — þegar hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar ræða málin — að þeir séu aðeins að keppast um það hver var fyrstur til að fatta að fasteignamatshækkanirnar mundu hafa áhrif á vaxtabæturnar, hver flutti tillöguna og þar fram eftir götunum.

Síðan það að allt hafi legið fyrir þá má nú öllum vera ljóst sem tóku þátt í umræðunum um þetta í vor og taka þátt í umræðunum núna, að það lá ekkert allt fyrir því að tölurnar sem um er að ræða núna eru raunverulega miklu lægri en menn vísuðu til í umræðunni í vor. Breytingin var raunverulega miklu minni.

Þá er mér ljúft að leiðrétta það sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir sagði og vísaði til þess að ég hefði talað um 700 milljónir. Ég hef þá væntanlega haft þær tölur úr fréttatilkynningunni en þar var ekki gerður greinarmunur á frumálagningunni og síðan leiðréttingunni eftir kærurnar, eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu, trúi ég, a.m.k. kom það fram í ræðu minni áðan, að verður að taka tillit til í þessu sambandi því að niðurstaðan þegar kærufresturinn og endanleg álagning liggur fyrir er að jafnaði hærri en eftir frumálagninguna. Niðurstaðan varð því sú eftir frumálagninguna að 300–400 milljónir vantaði upp á.

Ef þetta gengur eftir sem lagt er til í frumvarpinu og síðan þær leiðréttingar sem jafnan eru gerðar eftir frumálagninguna verður um að ræða 200 millj. kr. meiri útgjöld hjá ríkinu vegna vaxtabóta en frumvarpið gerði ráð fyrir. Það ætti þá öllum að vera ljóst miðað við þær forsendur sem lagt var upp með að verið er að bæta í vaxtabætur á þessu ári til að ná fram þeirri leiðréttingu sem um er að ræða. En einmitt vegna meðaltalanna er erfitt að ná þeirri leiðréttingu fram að fullu hjá öllum. Það er einfaldlega þannig að þegar verið er að fjalla um hluti sem reiknaðir eru út með breytilegum stærðum þá er erfitt að ná sömu niðurstöðunni fyrir alla. Það hefur alltaf verið þannig með vaxtabótakerfið vegna hinna breytilegu stærða sem þar koma inn, að erfitt hefur verið að áætla þær langt fram í tímann þó að auðvitað þegar verið er að reikna út skattframtalið og forsendurnar liggja fyrir sé hægt að reikna það hver niðurstaðan verður með þó nokkuð mikilli nákvæmni.

Þá kemur einmitt að því sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir nefndi, hún spurði: Af hverju er ekki hækkað um 35% frekar en 25%? Þrjátíu og fimm prósentin eru sérbýli í Reykjavík þar sem mesta hækkunin hefur verið. Og eins og hv. þm. Pétur Blöndal sagði eru þeir sem síður eru vel staddir fjárhagslega ekki að kaupa þannig húsnæði á hverjum degi. Meðaltalið er hins vegar yfir landið 25% og það verður það sama að ganga yfir alla í svona útreikningum, það er ekki hægt að gera það svæðisbundið og ekki er hægt að gera það einstaklingsbundið. Ekki er hægt að taka upp framtölin og segja: Þú átt að fá sömu vaxtabæturnar á þessu ári eins og þú hefðir fengið ef fasteignamatið hefði ekkert breyst. Vegna þess að þá værirðu að reikna út bæturnar á einstaklingsgrunni en ekki á almennum grunni eftir almennum reglum. Þá værirðu með sértækar reglur fyrir hvern og einn einstakan og það gengur eðlilega ekki upp. Það er því til fólk sem mun fá meira út úr þessari breytingu sem hér er verið að leggja til en aðrir fá vegna þess að hækkunin á fasteignamatinu hjá þeim hefur verið undir meðaltali.

Þannig hefur þetta verið í mörg ár eða allan þann tíma sem þetta kerfi hefur verið í gangi því að allan tímann hefur fasteignamatið verið að breytast og það hefur verið að breytast mismunandi. Það er því ekkert nýtt sem er að gerast í þessu annað en stærðirnar og þar af leiðandi er bitamunur en ekki fjár á því sem er að gerast á milli ára. Það réttlætir það að farið er út í þessa breytingu. Eins og ég sagði áðan var ég alla tíð tilbúinn til að skoða það kæmi í ljós að þetta væri vaxið á þennan hátt og hefur komið í ljós að þetta voru heldur minni breytingar en menn höfðu verið að tala um og þá væntanlega vegna þess m.a. sem ég talaði um í vor, að sumir aðilar hafa tök á því að bregðast við þróuninni og hafa þess vegna getað gert hluti sem tryggðu það að þeir fengju vaxtabæturnar sínar eins og þeir höfðu reiknað með, með því t.d. að auka skuldirnar hjá sér á einhvern annan hátt og tengja það við húsnæðið. Þetta er hluti af því sem gerir það að verkum að þetta vaxtabótakerfi okkar er gallað. Það ýtir undir skuldsetningu og ýtir undir það að fólk taki lán til þess að hafa sem hæstan stofn til vaxtabóta og það er auðvitað ekki jákvætt.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir talaði um að ASÍ hefði kvartað yfir því að ekki hefði verið haft samráð en það er einfaldlega rangt að ekki hafi verið haft samráð. Fulltrúar ASÍ komu á fund í ráðuneytinu þar sem kynnt var fyrir þeim hvernig að þessu ætti að standa. Þeir óskuðu síðan eftir upplýsingum og fengu þær sendar og þannig stóðu málin gagnvart þeim. (Gripið fram í.) Samráð er ekki það að sá sem er haft samráð við segi já eða nei. Samráð er það að hann viti um hvað er að ræða og hann hafi tækifæri til þess að koma á framfæri sjónarmiðum sínum og það var í þessu tilfelli.

Frú forseti. Það hefur verið gagnrýnt hvernig vaxtabótakerfið er vaxið og ég get að vissu leyti tekið undir það að ég hefði gjarnan viljað sjá það á annan hátt. En það er alltaf erfitt að breyta hlutum eins og þessum því að þá er verið raunverulega að taka frá einum og færa til annars. En sé vilji til þess hjá hv. þingmönnum að við skoðum þessi mál nánar og reynum að finna leið sem geri það að verkum að þeir fjármunir sem til þessa þáttar er varið renni í ríkari mæli til þeirra sem á þeim þurfa að halda, þá er ég reiðubúinn til að fara í þá hluti. En þá þyrftum við líka að gera það þannig að þeir hvetji ekki til skuldsetningar. Ég gæti vel ímyndað mér að það gæti farið saman, vaxtabótakerfi sem ekki hvetti til skuldsetningar og að það rynni í ríkari mæli til þeirra sem meira þurfa á því að halda.

Hitt þykir mér hins vegar lakara sem kom fram í ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar að við værum að fjalla um upphæðir sem ekki skipta neinu máli þegar við erum að fjalla um þær viðbætur sem fara í vaxtabótakerfið, að hálfur milljarður skipti engu máli. Það er verið að tala um að jafnvel litlar upphæðir skipti máli fyrir einstaklingana og ég er alveg sammála því að það er þannig, en ég held að við eigum ekki að tala þannig um opinbert fé að hundruð milljóna, hálfur milljarður skipti ekki neinu máli.