133. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2006.

tekjuskattur.

22. mál
[16:47]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra mótmælir því að ekki hafi verið haft samráð við ASÍ. Ég spyr þá hæstv. ráðherra: Hvað segir hann um þessa ályktun miðstjórnar ASÍ um vaxtabætur, þar sem segir, með leyfi forseta:

„Nú hefur fjármálaráðherra lagt fram á Alþingi frumvarp um breytingar á ákvæðum laga um vaxtabætur án samráðs við ASÍ. Frumvarpið, sem er samhljóða tillögum sem ASÍ hafnaði í viðræðum við ríkisstjórn í sumar, tryggir engan veginn leiðréttingu á þeirri skerðingu sem margir urðu fyrir vegna hækkaðs fasteignaverðs.“

Ég spyr hæstv. ráðherra hvað hann segi um þetta. Er verið að leggja fram sömu tillögur og ASÍ hafnaði í viðræðum við ríkisstjórnina í sumar? Ég held að það sé brýnt að við sem erum að fara að vinna málið í efnahags- og viðskiptanefnd fáum svar við spurningunni.

Ég spyr hæstv. ráðherra líka: Er hann tilbúinn til þess, og telur hann það sanngjarnt og eðlilegt, að greiða þessu fólki til baka það sem samsvarar þessari skerðingu, með dráttarvöxtum? Hvað tekur ríkið sjálft af þessu fólki ef það skuldar ríkinu? Hvað eru það háir vextir? Er hann tilbúinn til að greiða þessu fólki sambærilega vexti og þá sem hæstv. fjármálaráðherra tekur af fólkinu sem skuldar ríkiskassanum einhverjar fjárhæðir? Það er auðvitað ekki nema eðlilegt og sjálfsagt. Þetta er frá ágústmánuði og sennilega verður kominn desembermánuður þegar þetta verður afgreitt. Við erum að tala um nokkra mánuði sem eðlilegt er að þetta fólk fái líka dráttarvexti af þessum fjárhæðum.

Það kom fram í álagningunni í ágúst að um 10.000 manns hefðu þurft að sæta þessari skerðingu á vaxtabótum og því vil ég spyrja hann: Hvað er það mikill fjöldi — hafi það komið fram í máli ráðherrans hefur það farið fram hjá mér — sem fær leiðréttingu samkvæmt frumvarpi ráðherrans? Eru það þessar 10.000 manneskjur sem fram komu í álagningunni eða er það einhver annar fjöldi?

Ég spyr sérstaklega um dráttarvextina og samráðið við ASÍ og bið ráðherra að skýra það sem fram kemur í þessari ályktun ASÍ.