133. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2006.

tekjuskattur.

22. mál
[16:49]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það voru þrjár spurningar. Það mun fjölga um 5.000 frá þeim hópi sem fékk vaxtabætur við álagninguna í ágúst. Það fækkaði um 10.000 á milli ára en það er ekki endilega þar með sagt að þeim hafi öllum fækkað vegna fasteignamatsins. Það eru aðrir þættir, eins og farið hefur verið yfir hér margsinnis í umræðunni, sem hafa áhrif á vaxtabæturnar. En þeim mun fjölga um 5.000 og það kom fram í framsöguræðu minni.

Um fjárhagsleg viðskipti einstaklinganna við skattkerfið gilda ákveðnar reglur um það hvernig farið er með innstæður og skuldir. Ég man bara ekki alveg nákvæmlega hvernig þær eru en það verður að sjálfsögðu farið eftir þeim eðli málsins samkvæmt.

Síðan varðandi ályktun ASÍ, hún kom mér verulega á óvart, að ályktað skyldi vera á þennan hátt. Það er ekki í samræmi við staðreyndir málsins að svo sé gert. Ég hef aldrei heyrt ASÍ hafna einhverjum tilteknum leiðum í þessu á fyrri stigum málsins en ég held að það hljóti líka að vera augljóst að í svona flóknu úrlausnarefni, má segja, sem er að leiðrétta vaxtabætur eftir á — ég verð að viðurkenna að það er talsvert flókið — er erfitt að finna leið sem er tiltölulega einföld. Vaxtabótakerfið er í sjálfu sér flókið, flóknir útreikningar sem þar liggja á bak við.

En þegar við erum með einn tiltekinn þátt sem um er að ræða er einfaldara að leiðrétta hann og það er það sem við erum að gera. Við látum leiðréttinguna koma fram á þeim þætti. Það hefur eins og ég sagði líka aðeins mismunandi áhrif. Til að lina þau er um það að ræða að upphæðin sem í þetta er varið er heldur meiri en skerðingin nam, frú forseti.