133. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2006.

tekjuskattur.

22. mál
[16:57]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit ekki hverju ég á að svara því að hv. þingmaður var svo sem ekki með miklar spurningar eða athugasemdir við það sem ég var að segja annað en það sem hann er búinn að fara yfir. Ég held ekki að framkvæmdirnar hefðu verið neitt betri ef menn hefðu farið að giska á einhverjar breytingar í vor. Ég held bara að þá hefði aftur komið upp sami söngurinn núna ef menn hefðu eitthvað feilað sig í því og ætti að fara ofan í þetta enn eitt skiptið. Það er oft sagan í þessu.

Ég held reyndar að þegar upp verður staðið sé það sú staðreynd að niðurstaðan í öllu heila málinu verður sú að útgreiddar vaxtabætur á árinu 2006 verða meiri eftir þær breytingar sem þetta frumvarp leggur til verði það samþykkt.

Það sýnir, held ég, hug ríkisstjórnarinnar til þessa máls alls að hún hefur verið tilbúin til að bæta í til þess að bæta úr eins og hægt er í svo flóknu dæmi eins og vaxtabæturnar eru. Strax í upphafi í vor var lýst vilja til að gera það en þó ekki fyrr en niðurstaðan lægi fyrir og þá væri hægt að vita nákvæmlega hvað um væri að ræða frekar en að skjóta eitthvað út í myrkrið. Ég held að menn ættu frekar að hafa það í huga og hugsa dæmið út frá því en að liggja mönnum á hálsi fyrir að vilja gera hlutina eins vel og hægt er að gera.