133. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2006.

opinber innkaup.

277. mál
[17:26]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að nota tækifærið hér við 1. umr. og spyrja hæstv. fjármálaráðherra út í frumvarpið. Hér er um mikilvægt mál að ræða þar sem opinberar reglur, skýrar og gagnsæjar, tryggja að vel sé farið með opinbert fé og einnig tryggja þær að ákveðins jafnræðis sé gætt á milli aðila.

Það sem mig langaði að spyrja hæstv. ráðherra um eru mál sem eru nú mikið í umræðunni er varða kaup á öldrunarþjónustu. Það hefur m.a. komið fram í blöðunum að 15 milljörðum sé varið til kaupa á þessari þjónustu og að ekki sé gætt útboða við kaup á þjónustunni og að jafnvel standi til að fara í að reisa nýjar stofnanir þar sem ekki eigi að fara í útboð, heldur eigi að ráðstafa þessum framkvæmdum til ákveðinna aðila. Ég spyr hvort með samþykkt þessa frumvarps verði tekið á því og einnig hvort þá verði gerðir þjónustusamningar og þjónustan skilgreind sem viðkomandi aðilar eigi að inna af hendi. Þetta eru þau atriði sem ég tel mjög mikilvægt að svör fáist við.

Kannski í öðru lagi, sem væri ákaflega fróðlegt að fá svör við hér í umræðunni, er nokkuð sem varðar t.d. mál sem kom upp á Akureyri er varðar útboð á varðskipum. Munu þær reglur og þau lög sem verið er að kynna hér tryggja að ekki verði farið í þessi verkefni, svo sem eins og á Akureyri, þannig að ýtt verði út af borðinu íslenskum tilboðum og tekin útlensk tilboð? Þegar dæmið er gert upp hefði verið miklu hagstæðara að taka íslenska tilboðinu frá Slippstöðinni sem var á Akureyri í stað þess að fara með varðskipið til útlanda þar sem því fylgdi bæði ferðakostnaður og aukaverk. Verður gerð krafa um að dæmið verði (Forseti hringir.) gert upp í heild sinni?