133. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2006.

opinber innkaup.

277. mál
[17:31]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Mér heyrðist hæstv. ráðherra segja að öldrunarþjónusta væri stundum boðin út og stundum ekki. Maður veltir fyrir sér hvort það sé endilega rétt aðferð að gera þetta stundum og stundum ekki, hvort ekki væri þá réttara að ganga einfaldlega hreint til verks og bjóða þjónustuna út. Það væri meiri sanngirni fólgin í því og þannig væri tryggt að jafnræðis væri gætt og að vel væri farið með opinbert fé. Það liggur fyrir skýrsla frá ríkisendurskoðanda þar sem hann fer í rauninni fram á að þessi þjónusta við öldrunarstofnanirnar verði skilgreind þannig að hún verði kostnaðargreind og að tilviljun ráði ekki hver fái ákveðna upphæð heldur verði því fylgt eftir með þjónustusamningi. Þannig verði tryggt að fyrir ákveðna þjónustu verði greidd ákveðin upphæð en ekki að viðkomandi stofnun sé í sjálfsvald sett hvernig hún skilgreini þjónustuna.

Það er líka mjög erfitt fyrir þá sem hafa eftirlit með viðkomandi starfsemi að ekki liggi hreint fyrir að ákveðinn þjónustusamningur sé á bak við ákveðna upphæð, þ.e. að ef ákveðin upphæð fylgir tiltekinni þjónustu inn á stofnun, eins og dæmi eru um hjá einkareknum eða sjálfseignarstofnunum, þá sé vitað í hvað fjármunirnir eigi að fara.