133. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2006.

tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur.

276. mál
[18:01]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alltaf spurning hvaða mælikvarðar eru notaðir þegar við erum að ræða um barnabætur. Það hlýtur náttúrlega að segja sína sögu, virðulegi forseti, að ef minna er eytt í barnabætur á þessu ári í útgjöldum að raungildi en var árið 1995 segir það sína sögu um að barnabótakerfið var betra árið 1995 en það er í dag. (Gripið fram í.) Ríkisstjórnin hefur komið barnabótakerfinu svo fyrir að í dag eru það einungis 3% hjóna sem fá óskertar barnabætur. Við hvaða tekjur er miðað hjá þessum hjónum? Miðað er við 155 þús. kr. samanlagðar tekjur hjóna og eftir það er byrjað að skerða. Þetta eru ekkert annað en láglaunabætur. Einstæðir foreldrar með 77 þús. kr. mánaðartekjur, þetta nær ekki einu sinni lágmarkslaunum og þá er byrjað að skerða barnabæturnar. Enda eru það ekki nema 11,3% einstæðra foreldra sem fá óskertar barnabætur. Þetta hlýtur að segja sína sögu.

Ég sé framsóknarmennina hérna hægra megin í salnum en það var á árinu 1999 sem þeir lofuðu að öll börn mundu fá ótekjutengdar barnabætur. Ekki er búið að efna það loforð nema að hálfu, það eru bara börn að 7 ára aldri sem fá ótekjutengdar barnabætur. Það vantar því ansi mikið t.d. upp á loforð framsóknarmanna enda eru það sjálfstæðismenn sem hafa ráðið ferðinni í niðurskurðinum á barnabótakerfinu og framsóknarmenn láta sig hafa það. Þannig er nú komið fyrir barnabótakerfinu okkar sem er ekkert annað en láglaunabætur.

Ég held að við ættum að taka t.d. Norðurlöndin okkur til fyrirmyndar á þessu sviði þar sem miklu meira fjármagni úr velferðarkerfinu er varið til barnabóta og til barna almennt í samfélaginu en hjá okkur. Það væri meiri (Forseti hringir.) sómi að því en að standa hér eins og hv. (Forseti hringir.) þingmaður gerði og tala hátt um að það sé nú allt í lagi með þetta barnabótakerfi.