133. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2006.

tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur.

276. mál
[18:03]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það var eitt atriði í ræðu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur sem mig langaði til að ræða örlítið frekar. Það var þegar hv. þingmaður kom að persónufrádrættinum og þeirri breytingu sem fyrirhuguð er á honum með því frumvarpi sem er til umræðu.

Hv. þingmaður gagnrýnir eins og oft áður það að persónufrádrátturinn hafi ekki hækkað meira en raun ber vitni og gefur í skyn að þingmaðurinn og hans ágæti flokkur hefði staðið sig svo miklu betur ef þau hefðu haft til þess tækifæri í ríkisstjórn. Ég get ekki annað en rifjað upp af þessu tilefni að fyrir síðustu kosningar voru skattamál mjög til umræðu og þar á meðal var af hálfu t.d. okkar sjálfstæðismanna lögð fram mjög eindregin stefna um lækkun tekjuskatta og á lokaspretti kosningabaráttunnar var mjög skýrt af hálfu Samfylkingarinnar hvað Samfylkingin vildi gera í stað þeirrar tekjuskattslækkunar sem við boðuðum. Því var slegið föstu af hálfu talsmanna Samfylkingarinnar að það sem Samfylkingin hygðist gera væri það að beita sér fyrir breytingum með það að markmiði að skattleysismörk hækkuðu um 10 þús. kr., úr u.þ.b. 70 þús. kr. sem talan stóð í á þeim tíma og upp í um 80 þús. kr.

Nú er staðan reyndar sú að skattleysismörkin eru komin upp í 79 þús. kr., sem sagt nokkurn veginn þá upphæð sem Samfylkingin lofaði fyrir síðustu kosningar og nú er ríkisstjórnin að leggja til að gert verði enn betur og farið í um 90 þús. kr. Mér finnst það mjög ósannfærandi af hálfu hv. þingmanns að gera mikla rellu út af þessu (Forseti hringir.) vegna þess að ríkisstjórnin er að gera betur en Samfylkingin lofaði að þessu leyti.