133. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2006.

tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur.

276. mál
[18:06]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Skattleysismörkin, eins og ég nefndi áðan, ættu að vera miklu hærri ef þau hefðu haldið í við raungildi þeirra eins og þau voru árið 1995. Það liggur því alveg fyrir að skattleysismörkin ættu að vera 137 þús. kr. núna, hvorki meira né minna. Þarna vantar því verulega á. (Gripið fram í.)

Við vildum fara ýmsar aðrar leiðir að því að laga skattbyrðina hjá fólki með lágar tekjur og meðaltekjur, m.a. með lækkun á virðisaukaskatti og með ýmsum ráðstöfunum í skattkerfinu sem hefðu komið barnafólki verulega til bóta. Það er alveg ljóst að fyrir fjórum árum var náttúrlega allt önnur staða uppi en núna er varðandi skattleysismörkin og þess vegna mundum við alveg treysta okkur til að fara verulega hærra í skattleysismörkunum núna en var á þeim tíma. Ljóst er að sú lækkun sem hefur orðið á skattleysismörkunum hefur verið notuð tvíþætt af ríkisstjórninni, annars vegar til að lækka skuldir og einnig til að lækka skattbyrði á 10% þjóðarinnar sem hæstar hafa tekjurnar. Þetta eru um 30–40 milljarðar sem hafa sparast með þessum hætti.

Ég hefði viljað sjá það fjármagn sem var notað til að lækka skattana á fólki með hærri tekjur, 30–40 milljarða, fara í að hækka skattleysismörkin og breyta persónuafslættinum frekar en fara þær leiðir sem hæstv. ríkisstjórn hefur farið. Það er sú leið sem ég mundi beita mér fyrir ef maður hefði haft milli handanna eins mikið og þessi ríkisstjórn hefur haft, þ.e. um 36 milljarða. Miðað við það að lækka skattleysismörkin hefði ég kosið að fara þá leið að þetta skilaði sér til fólks með lágar tekjur og meðaltekjur með hækkun skattleysismarka frekar en að skerðingin á skattleysismörkunum (Forseti hringir.) færi eingöngu til þess að lækka skattbyrðina hjá þeim sem hæstar hafa tekjurnar.