133. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2006.

tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur.

276. mál
[18:14]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Þetta frumvarp hæstv. ráðherra er að hluta til afsprengi samkomulags aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda á síðastliðnu sumri og varðar stærsta einstaka efnisþátt þess, þ.e. breytta álagningu tekjuskatts frá því sem lögfest var í upphafi þessa kjörtímabils eða snemma á þessu kjörtímabili. Það var nefnilega farin sú óvenjulega leið, óhefðbundna leið, satt best að segja, að lögfesta skattbreytingar langt fram í tímann í framhaldi af síðustu alþingiskosningum en þá skall á með miklum skattalækkunarloforðum eins og einhverja rekur sjálfsagt minni til. Og til að sýna einbeitni sína í því að lækka nú skatta höfðu sjálfstæðismenn það fram að þetta var ekki gert jafnóðum og það átti að koma til framkvæmda heldur voru áformin lögfest þrjú ár inn í framtíðina, og þar með auðvitað sagt að algjörlega óháð efnahagsaðstæðum, hagsveiflunni, nauðsyn aðhalds í hagstjórn eða öðru slíku skyldi þetta ganga fram. Sem sagt forgangsmál af því tagi og allt annað skyldi aðlaga sig að því. Inni í þessu var hið langþráða og mikla hugsjónamál sjálfstæðismanna að leggja niður hátekjuskattinn, þetta litla álag sem var á hærri tekjur í samfélaginu.

Skattastefna núverandi ríkisstjórnar og í raun og veru allt frá því að Sjálfstæðisflokkurinn kom inn í Stjórnarráðið 1991 hefur verið því marki brennd að fletja skattkerfið út, draga úr tekjuöfnunargildi skattkerfisins í rauninni á báðar hliðar, því að annars vegar er teknanna aflað á þann hátt að það felur í sér minni tekjujöfnun hvernig menn greiða inn og síðan er þeim ráðstafað þannig í gegnum útgjöld ríkisins að þar dregur líka úr tekjujöfnunargildinu, m.a. með því að velta kostnaði af ýmiss konar þjónustu yfir á notendur, óháð þeirra efnahag.

Þetta hefur síðan leitt til þess, herra forseti, eins og allar mælingar sýna núna, að ójöfnuður hefur aukist gríðarlega á Íslandi. Vissulega er þar að hluta til við að glíma þróun á launamarkaði hvað dregur hratt í sundur með hinum tekjuhæstu og hinum tekjulægstu en þar við bætist það ástand að tekjujöfnunargildi skattkerfisins fer minnkandi og þá er ekki á góðu von. Þetta frumvarp er þar af leiðandi bara breyting á þessum áður lögfestu áformum og felur í sér að stærsta einstaka þrepið í skattalækkunum í samræmi við loforðin frá kosningunum 2003 og átti að koma nú til framkvæmda, 2% lækkun frá og með næstu áramótum á tekjuskatti einstaklinga flatt, er nú breytt yfir í 1% lækkun og nokkra hækkun persónufrádráttar eða skattleysismarka. Þann þátt málsins á að heita að aðilar vinnumarkaðarins eða verkalýðshreyfingin hafi knúið fram í samskiptum við stjórnvöld á síðastliðnu vori.

Skattleysismörkin eru engu að síður, eins og komið hefur fram í umræðunni, langt frá því að hafa fylgt þróun verðlags, hvað þá launa, eins og hún hefur verið undanfarin ár. Hvernig sem menn þrasa um þá hluti þá sýnir einfaldur framreikningur á núgildandi verðlagi á skattleysismörkunum að miðað við verðlag, hvort sem við tökum útgangspunkt í upptöku staðgreiðslunnar á sínum tíma, 1988, eða þó að við tækjum skattleysismörkin við stjórnarskiptin 1991, ættu þau að vera af stærðargráðunni 110 þúsund hið minnsta miðað við þróun verðlags, og 130–140 þúsund miðað við þróun launa. Þetta eru óhrekjandi staðreyndir og þó að menn haldi hér þúsund ræður um eitthvað annað mun því ekki verða breytt.

Í gegnum þessa lymskulegu aðferð, að halda skattleysismörkunum niðri en lækka síðan tekjuskattsprósenturnar ofan frá, er skattbyrðin flutt til frá háum tekjum niður á lágar tekjur. Þetta endurspeglast eins og áður sagði í minnkandi tekjujöfnunargildi skattkerfisins. Það sýna samanburðarmælingar. Ef t.d. svonefndur Gini-stuðull er reiknaður út fyrir Ísland, en hann tekur mið af launamun að teknu tilliti til almannatrygginga og tekjujöfnunargildis skattkerfisins og samneyslunnar, þá hefur Ísland siglt hraðbyri burt frá öðrum Norðurlöndum hvað þetta varðar og ójöfnuður fer hér mikið og ört vaxandi.

Við vinstri græn skárum okkur úr umræðum um þessi mál á sínum tíma og vorum ekki þátttakendur í hinum víðtæka skattalækkunarkór sem brast á í alþingiskosningunum 2003. Í fyrsta lagi vegna þess að við viljum tryggja ríki og sveitarfélögum trausta og fullnægjandi tekjustofna til að standa myndarlega undir samneyslunni og velferðarþjónustunni í landinu. Við erum sjálfum okkur samkvæm í því að ef lagðar eru til aðgerðir til að bæta kjör aldraðra og öryrkja, til að byggja upp í samfélagi okkar og til að styrkja innviði samfélagsins, þá þarf til þess tekjur og þær koma ekki af himnum ofan. Menn verða að vera sjálfum sér samkvæmir og vera tilbúnir til að afla þeirra og það erum við og höfum alltaf verið. Við sögðum: Að því marki sem svigrúm verður til skattalækkana á komandi kjörtímabili ætlum við að nota það svigrúm, ef við fáum því ráðið, til að bæta stöðu hinna lakast settu og lægst launuðu í landinu. Við munum ekki lækka skatta á hátekjufólki en það hefur ríkisstjórnin nákvæmlega gert. Forgangsmál hennar var að lækka skatta á hátekju- og stóreignafólki og það hefur hún gert með þeim afleiðingum sem blasa við hverjum manni.

Í öðru lagi var það og er þannig að það er feiknarlega óskynsamlegt að ákveða skattalækkanir og umtalsverðar breytingar í ríkisfjármálum mörg ár fram í tímann, óháð því hvernig efnahagsástand og aðstæður verða þegar þær eiga að koma til framkvæmda. Þetta er margbúið að segja við ríkisstjórnina, ekki bara af okkur heldur öllum helstu sérfræðistofnunum á sviði hagstjórnar og efnahagsmála, bæði innan lands og utan, en ríkisstjórnin hefur það að sjálfsögðu að engu. Skattalækkanir ríkisstjórnarinnar og áformin sem slík, með þeim væntingum sem þeim hafa fylgt, hafa verið einn þátturinn sem hér hefur kynt upp jafnvægisleysi og verðbólgu, það er óhrekjandi. Og enn undrast menn að ríkisstjórnin skuli, algjörlega óháð aðstæðum, ætla út í skattalækknir eða breytingar af því tagi.

Það nægir að bregða hér á loft, herra forseti, síðasta hefti Peningamála Seðlabankans. Þar er enn spurt hvort það sé virkilega svo að menn ætli ekkert að haga tímasetningu þessara aðgerða, burt séð frá þeim sem slíkum, með einhverri hliðsjón af ástandinu í hagkerfinu. Seðlabankinn er auðvitað að segja: Ef ríkisstjórnin fer fram með skattalækkanir um næstu áramót upp á 2%, ígildi tveggja prósentna í tekjuskatti, svona útfært eins og þetta frumvarp ber í sér, og bætir svo þar við þeim lækkunum 1. mars nk. sem nú á að fara í á virðisaukaskatti, vörugjöldum og óbeinum sköttum, þá dregur það einfaldlega úr því efnahagslega aðhaldi sem stýrivaxtaákvarðanir Seðlabankans og önnur viðleitni felur í sér. Til dæmis er það mat Seðlabankans að stýrivextirnir þurfi að vera allt að hálfu prósentustigi hærri vegna breytinganna sem fyrirhugaðar eru 1. mars. Þannig meta menn einfaldlega efnahagsleg áhrif þessara aðgerða og það eykur þá vandann á hina hliðina hvað varðar hagstjórn bankans.

Þá er einn þáttur enn ónefndur í þessu, herra forseti, og það er að á sama tíma hefur ríkið selt verðmætar eignir og talið sig vera og hefur kannski að mörgu leyti verið í aðstöðu til þess að lækka beina skatta vegna þess að það hafa komið gríðarlegar tekjur inn í ríkissjóð vegna þenslunnar og jafnvægisleysisins í hagkerfinu. Viðskiptahallinn, sem þýðir á mannamáli gríðarlegan innflutning og eyðslu þjóðarinnar langt umfram efni, er auðvitað ávísun á tekjur ríkissjóðs, mikil ósköp, t.d. allur bifreiðainnflutningurinn með þeim gjöldum sem þar eru lögð á. Þá er auðvelt að vera miklir menn og telja sig hafa efni á að lækka beina skatta. Það hefur ríkisstjórnin gert en án þess að horfa til lengri tíma, án þess að horfa til þess hvernig takast eigi á við hagstjórnina og án þess að horfast í augu við hvernig öðrum aðilum reiðir af á sama tíma í landinu.

Hvaða aðra aðila er ég þá að tala um m.a.? Að sjálfsögðu heimilin og atvinnulífið en ég er líka að tala um sveitarfélögin. Það er auðvitað alveg með ólíkindum ef ríkisstjórnin kemst upp með það, og við undarlega þögn a.m.k. flokksmanna sinna í forustu sveitarfélaganna í landinu, að lækka skatta á þessu kjörtímabili með þessum hætti án þess að gera minnstu tilraun til að laga stöðu sveitarfélaganna. Væri ekki nær að taka a.m.k. eitthvað af því svigrúmi sem menn telja vera til skattalækkana og færa það yfir í traustari tekjustofna sveitarfélaganna? Hverju sætir það að menn skuli ekki einu sinni líta á það að færa t.d. 1% af þessum fjórum eða þremur — þó að þau verði nú ekki nema þrjú þegar upp er staðið sem tekjuskatturinn verður lækkaður flatt, hin almenna prósenta hans — yfir í sambærilegar heimildir í útsvari á móti?

Þetta höfum við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði lagt fram í formi frumvarps ár eftir ár. Strax þegar fyrsta prósentið kom til framkvæmda í hittiðfyrra, þegar næsta prósent kom til framkvæmda í fyrra og við munum gera það enn nú, annaðhvort með sjálfstæðu frumvarpi eða með breytingartillögum við þetta frumvarp þegar það fær afgreiðslu, ef það fær afgreiðslu fyrir jólin, af því að menn eiga ekki að komast upp með annað en að svara því í leiðinni: Hvað með afkomu sveitarfélaganna?

Sum þeirra hafa vissulega notið nokkurs góðs af þenslunni í hagkerfinu en önnur ekki. Önnur hafa bara alls ekki fengið neitt af því. Það eru tugir sveitarfélaga í landinu sem eiga í gríðarlegum erfiðleikum með að ná endum saman, eiga engan veginn fyrir rekstri, hvað þá einhverjum fjárfestingum. Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera í málefnum þeirra sveitarfélaga? Veit ríkisstjórnin af því að eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga var á ferðinni á dögunum? Hún var að heimsækja sveitarfélögin á listanum, válistanum, mjög gjarnan minni og meðalstór þéttbýlissveitarfélög á landsbyggðinni, hvert sveitarfélagið á fætur öðru var að fá heimsókn frá eftirlitsnefndinni sem spyr: Þið eruð að fara á hausinn, hvað ætlið þið að gera?

Hver er niðurstaðan af þeim fundum? Er hún einhver von um betri afkomu sveitarfélaganna og traustari tekjustofna? Nei, hún er blóðugur niðurskurðarhnífurinn í höndum sveitarstjórnarmanna. Þegar eftirlitsnefndin fer þá er eitt skilið eftir á staðnum, ekki loforð um betri afkomu, ekki fjárveitingar, heldur blóðugur niðurskurðarhnífurinn í höndum sveitarstjórnarmannanna, herra forseti. Það er veruleikinn, m.a. sveitarfélaga í okkar kjördæmi. Þetta er staðan.

Hér kemur svo ríkisstjórnin og sperrir stél og segist hafa svigrúm til að lækka skatta, óháð því hvernig Seðlabankanum gengur að slökkva eldana í hagkerfinu, óháð því hvernig aðstæður annarra aðila eru í þjóðfélaginu, sveitarfélögin mega éta það sem úti frýs.

Herra forseti. Hvert prósentustig í tekjuskatti eða samanlagðri álagningu tekjuskatts og útsvars eru umtalsverðar fjárhæðir. Á milli 60 og 70% tekna sveitarfélaganna í landinu koma úr útsvarinu þannig að það verður ekkert stórt gert í þeirra málum nema útsvarið komi þar eitthvað við sögu. Vissulega má hugsa sér að bæta stöðu lakar settu minni sveitarfélaganna með meiri fjármunum í gegnum tekjujöfnun og útgjaldajöfnun í jöfnunarsjóði ef það verður þá í boði, en maður á eftir að sjá hvernig því starfi reiðir af. Með útsvarsheimildum væru þó a.m.k. þeim sveitarfélögum sem það kjósa gefnir einhverjir möguleikar til að afla sér meiri tekna og það mundi þýða að skattbyrðin eða skattastigið héldist óbreytt eða lækkaði minna en ella yrði og sem næmi þá nýtingu sveitarfélaganna á nýjum heimildum til útsvars. Ég mundi ætla að allmörg sveitarfélög, sem nú þegar fullnýta heimildir sínar til útsvarsálagningar, notuðu sér það að fá þar eitt prósentustig í viðbót og þannig mundu sveitarfélögin eða sveitarfélagastigið afla kannski 2–3 milljarða í viðbótartekjur og það mundi vissulega muna verulega um það. (Gripið fram í: Hvaðan?) Hvaðan? (Gripið fram í.) Heldur hv. þingmaður að sá sem hér talar viti ekki hvaðan skattar koma? Vill hv. þingmaður byrja í leikskólastílnum í umræðum um þessi mál? Ég held að hv. þm. Pétur Blöndal ætti að reyna að ræða þetta á einhverjum öðrum nótum en þessum eða kalla eitthvað gáfulegra fram í en þetta, svo ég leyfi mér að segja það.

Ég veit vel hverjir borga skatta. Það eru launamenn og það eru lögaðilar í landinu. Það eru þeir sem hafa fjármagnstekjur o.s.frv. Gallinn er hins vegar sá, hv. þm. Pétur Blöndal, ef ég má leyfa mér að brjóta hér þingsköp, herra forseti, og beina máli mínu að frammíkallanda, (Gripið fram í.) gallinn er sá, herra forseti, að þessi ríkisstjórn, þessi hægri stjórn, þessi nýfrjálshyggjustjórn hefur verið á fullri ferð með að ameríkanísera skattkerfið, (Gripið fram í.) hlífa hátekjufólki og færa byrðarnar yfir á lágtekjufólk. Ef stóra samhengið í skattkerfisbreytingum á Íslandi er tekið síðastliðin 15 ár þá er það frá skatti af hlutabréfagróða og arði — og brosa nú sumir hérna í salnum. Það er frá hagnaði fyrirtækja yfir í skatta launamanna og innan launamannahópsins frá háum tekjum yfir á lágar tekjur. Þetta er tilfærslan í skattbyrðinni, hún er svona. Þetta er skattastefna ríkisstjórnarinnar. Þetta er það sem eftir er af félagshyggju Framsóknarflokksins sem einu sinni átti að heita að væri einhver.

Hér hefur verið rekin grófari hægri stefna í skattamálum en í flestum öðrum vestrænum ríkjum að Bandaríkjunum og einhverju leyti Bretlandi einum undanskildum. Ég held að þetta sé að vísu svæsnara hjá Bandaríkjamönnum, repúblikönum þar, vegna þess að kannanir sýna að aðeins á bilinu 1–5% af Bandaríkjamönnum hafa hagnast á skattkerfisbreytingum stjórnvalda þar.

Ég býst við að það séu kannski 10–15% hér en miklu meira er það ekki, því að ítarlegar kannanir og rannsóknir sýna að allur þorri launamanna hér á landi og allt fólk með lægri og meðaltekjur borgar hlutfallslega meiri skatta í dag. Þeir einu sem virkilega hafa grætt er hátekjufólkið, það hefur fengið sérstaka skattalækkun upp á 4% eða 6% eftir því hvaða ár við tökum til viðmiðunar í hátekjuskattinum. Við vitum hvert eignarskattarnir eru að fara. Og síðan er stóra jólagjöfin sem menn glöddust yfir á Alþingi fyrir allmörgum árum þegar skattur af hlutafélagagróða og arði var færður niður úr venjulegri skattlagningu og niður í þau 10% sem hann er í dag og stærri jólagjafir hafa nú ekki margir fengið.

Svona hefur skattkerfið verið flatt út, það eru áherslur þessarar ríkisstjórnar í skattamálum, þannig er það. Það þarf að tryggja að mönnum sé það ljóst og menn gíni ekki við loforðum af því tagi sem gefin voru hér á sínum tíma fyrr en menn átta sig á hvað í þeim er fólgið, hvaða áhrif þau hafa í samfélaginu. Svo óskapast allir yfir misskiptingunni, það sé alveg skelfilegt mál hvernig hún vex. En af hverju er hún að vaxa? Jú, það er af því að unnið er að því hörðum höndum af stjórnarflokkunum og ýmsum öflugum hagsmunaaðilum á bak við þá, fjármagnseigendum og fyrirtækjum, að búa til þannig samfélag á Íslandi. Það er veruleikinn og hér er einn örlítill angi af því á ferðinni.

Það væri jöfnun fólgin í því að færa t.d. þetta svigrúm að einhverju leyti yfir til sveitarfélaganna, vegna þess að eitt af því sem veldur vaxandi ójöfnuði í landinu er mismunandi og bág fjárhagsstaða sveitarfélaganna. Það er eitt af því sem er að veikja okkar velferðarkerfi að sveitarfélögin, mörg hver, eru verr og verr í stakk búin til að sinna sínum mikilvægu verkefnum á því sviði. Það er veruleikinn. Þau eru að safna á sig skuldum, þau hafa neyðst til að selja eignir og mörg hver eru þannig komin í gjörgæsludeild eftirlitsnefndar um fjármál sveitarfélaga eins og kunnugt er. En að ríkisstjórnin sé að gera eitthvað til þess að taka á því máli, nei, ekki verð ég var við það, og undarlega mikið fylgi sem þessir flokkar fengu í sveitarstjórnarkosningunum síðastliðið vor. Að vísu voru það kannski ekki alls staðar nein ósköp sem Framsókn fékk en allt of mikið samt, að ég tali nú ekki um Sjálfstæðisflokkinn sem ber höfuðábyrgð á því hvernig sveitarfélögin hafa verið svelt til hlýðni á undanförnum árum. (Gripið fram í.)

Ég boða það, herra forseti, að við munum fylgja okkar málum eftir í þessum efnum og sjá til þess að þingmenn fái þá eina ferðina enn að svara því með atkvæði sínu hvort þeir vilja halda áfram að pína sveitarfélögin eins og þeir hafa gert að undanförnu. Þá getur verið, eins og stundum gerðist á árum áður, að einn og einn sveitarstjórnarmaður sem jafnframt á sæti á þingi gufi allt í einu upp í þingsalnum þegar fara á að greiða atkvæði um slíka hluti. Upp á það hefur maður nú horft og þá er flokkshollustan tekin fram yfir hitt að standa vaktina fyrir sveitarstjórnirnar hér, ef menn rata hingað inn á þing verandi jafnframt kjörnir á því stigi.

Það er ýmislegt fleira í þessu frumvarpi, herra forseti, sem mætti staldra við en er kannski ekki jafnstórt í sniðum og þetta stóra atriði sem ég hef sérstaklega gert að umtalsefni, það er tekjuskatturinn, það eru skattleysismörkin og breytingarnar um komandi áramót og áhrif þessa yfir í hagstjórnina og stöðu efnahagsmála.

Svo ætla ég aðeins að segja það að lokum að hæstv. ríkisstjórn hefur verið býsna dugleg við að selja eignir og lækka skatta á hátekjufólki og stóreignafólki og hún hefur í raun og veru getað gert það vegna þess að tvennt var fyrir hendi, verðmætar eignir til að selja, eins og Síminn, og miklar tekjur sem voru að flæða inn í ríkissjóð af þenslunni og sérstöku ástandi í efnahagsmálum, sérstaklega vegna viðskiptahallans. Það er ekki víst að það verði til staðar (Forseti hringir.) um aldur og ævi, og örugglega ekki, og þá er ekki víst að það verði eins gaman að verða fjármálaráðherra á Íslandi.