133. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2006.

tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur.

276. mál
[18:34]
Hlusta

Björn Ingi Hrafnsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vildi gera nokkur atriði í máli hv. þingmanns að umtalsefni en fer yfir efni frumvarpsins í ræðu hér á eftir. Honum var tíðrætt um samhengi hlutanna. Ég er sammála honum um það. Ég minnist vel skattalækkunarumræðunnar í aðdraganda síðustu alþingiskosninga. Gott ef hv. þingmaður talaði þá ekki um loforðafyllirí, eða hvaða orð hann hafði um það. Það má vissulega segja að vinstri grænir hafi haft þar ákveðna sérstöðu.

Þegar rætt er um samhengi hlutanna er ég honum sammála um að ekki sé sjálfgefið að tekjurnar aukist. En þegar samhengi hlutanna er skoðað þá er það einmitt út af pólitískri stefnumörkun að tekjur hafa aukist. Í því sambandi langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann sé sammála flokksbróður sínum, þingflokksformanni Vinstri grænna, sem lýsti því yfir um helgina að hann vildi helst senda viðskiptabankana úr landi til að auka tekjujöfnuð í þjóðfélaginu. Er hann er sammála þingflokksformanni Vinstri grænna um að viðskiptabankarnir fari úr landi, þúsundir manna missi störf sín og ríkissjóður, sem hann hefur verið ötull talsmaður fyrir í gegnum tíðina, verði af tugmilljarðatekjum í formi tekjuskatts, fjármagnstekna og annars slíks? Það væri fróðlegt að heyra viðhorf hv. þingmanns til þess og hvort hann er sammála þessu. Ef ekki þá er augljóslega kominn upp djúpstæður klofningur hjá Vinstri grænum um þessi mál?

Varðandi tekjuskiptingu til sveitarfélaga get ég verið sammála hv. þingmanni. Ég tel að sveitarfélögin eigi að fá stærri hluta í þessu sambandi. Ég er ekki talsmaður þess að skattar verði hækkaðir en tel að 20–30% hlutur af tekjum ríkissjóðs vegna fjármagnstekna ætti að koma þar inn. Þær tekjur hafa reynst meiri en ráð var fyrir gert auk þess sem þróunin hefur verið sú að einkahlutafélögum hefur fjölgað mjög á kostnað þeirra sem greiða almennan tekjuskatt af launatekjum.