133. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2006.

tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur.

276. mál
[19:32]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég vil ræða nokkur atriði í þessu máli og ætla að nefna þau áður en ég vík að skattastefnu ríkisstjórnarinnar sem ég ætla að hafa sem útgangspunkt í þessu máli.

Í fyrsta lagi langar mig að nefna það sem hér stendur í 4. gr. og ekki hefur verið vikið að í þessari umræðu, þ.e. að færa aldursmörkin úr 16 í 18 ár. Við það, hæstv. forseti, verður sú breyting, eins og lýst er í athugasemdum um 4. gr., að þar með fellur niður heimild til lækkunar á tekjuskattsstofni samkvæmt 4. tölul. 65. gr. þar sem skattstjóra er heimilt að taka til greina umsókn manns um lækkun á tekjuskattsstofni ef hann þarf að standa straum af verulegum útgjöldum vegna menntunar barna sinna eldri en 16 ára.

Ég geld varhuga við þessu, einkum vegna landsbyggðarinnar. Tökum dæmi af byggð þar sem ekki er framhaldsskóli og fólk þarf að senda börnin sín í framhaldsskóla um langan veg, nærtækast væri að nefna dæmi sem lagt var á borð fyrir okkur þingmenn í Norðvesturkjördæmi um kostnað fólks á suðurfjörðum Vestfjarða við að koma börnum sínum í framhaldsskóla. Þar var kostnaðurinn við það nákvæmlega tilgreindur út frá þeim möguleikum sem eru í boði, þ.e. Reykjavík, Akureyri, Stykkishólmi eða Ísafirði auk þess að hafa leiguhúsnæði fyrir börnin á viðkomandi stöðum. Þar var sýnt fram á að sá kostnaður gæti farið yfir milljón á barn á hverjum vetri.

Mér finnst ekki rökrétt, og vil endilega að það sé mjög vel skoðað í viðkomandi nefnd, efnahags- og viðskiptanefnd, sem hér stendur til vegna þess að dreifbýlisstyrkurinn er, ef ég man rétt, um 180 þús. kr. á ári. Fólk í dreifbýli sem þarf að senda börn sín til að þau komist í framhaldsskóla þarf að greiða miklu hærri upphæðir en sem nemur þessum dreifbýlastyrk. Fólk hefur sem sagt átt þann möguleika í skattalögum, ef það hefur sýnt fram á veruleg útgjöld vegna menntunar barna sinna, að fá þann kostnað dreginn frá tekjuskattsstofni. Ég tel að barnabæturnar, þótt þær komi inn milli 16 og 18 ára aldurs við þessa breytingu, dekki með engum hætti þann kostnað. Þarna munu verulegar upphæðir lenda milli stafs og hurðar, ef hægt er að segja svo, og lenda á dreifbýlisfólki þar sem ekki er hægt að bjóða upp á menntun í heimabyggð á framhaldsskólastigi, þ.e. þurfi fólk að koma börnum sínum til mennta með því að senda þau um langan veg.

Vissulega er sú stefna við lýði í þjóðfélaginu að tryggja skuli framhaldsmenntun í heimahéraði eða því sem næst og ber nýr framhaldsskóli á Snæfellsnesi vitni um hvað hægt er að gera í þeim efnum. En ég bendi á þetta, hæstv. forseti, vegna þess að víða í hinum dreifðu byggðum landsins er framhaldsskóli ekki til staðar. Ég held að með þessu sé vegið að þeim foreldrum sem leggja hundruð þúsunda með börnum sínum til að koma þeim til mennta í framhaldsskóla á þessu aldursbili, frá 16–18 ára. Ég tel fyrir mína parta að barnabæturnar séu ekki nema brot af því sem þarna fellur út, heimild í skattalögum til að draga frá tekjuskattstofni. Ég geld varhuga við því að þessi liður 4. gr. sé afgreiddur, herra forseti, eins og hann stendur hér. Ég trúi ekki öðru en menn skoði það mjög vandlega.

Ég trúi ekki að það sé vilji Alþingis eða ríkisstjórnarinnar að vega frekar að fólki í dreifðum byggðum en orðið er. Það er a.m.k. ekki í samræmi við nýsamþykkta byggðaáætlun, þar sem menntunin á að vera í forgangi, ef jafnvel kostnaður við að koma börnum sínum til mennta fæst ekki dreginn frá tekjuskattsstofni þótt hann sé verulega miklu meiri en hjá öðru fólki sem hefur framhaldsskólann við bæjardyrnar eða a.m.k. svo nærri að koma megi börnum til skóla með tiltölulega litlum kostnaði. Þetta vildi ég sagt hafa um 4. gr. vegna þess að hún hefur ekki verið til umræðu, hæstv. forseti. Ég vildi þess vegna vekja athygli á því að þetta ákvæði þarf að taka til gagngerrar endurskoðunar.

Ég vil, hæstv. forseti, því næst víkja að skattastefnu ríkisstjórnarinnar. Hún hefur á undanförnum árum sett í forgang, eins og ég gat um í andsvari áður, að afnema allt sem hét hátekjuskattur, en hér var tekinn upp hátekjuskattur í nokkur ár. Menn geta deilt um útfærsluna á honum. Ég hygg t.d. að undir lokin hafi viðmiðunartala fyrir hátekjuskatt verið of lág. Ég held hins vegar að það hefði verið skynsamlegt að halda inni einhverjum hátekjuskatti en hækka kannski viðmiðunartöluna varðandi launin og fá meiri tekjur af hæstu tekjum. Ég og flokkur minn teljum að það hafi ekki verið rétt stefna að fella algerlega niður hátekjuskatt og gera það að forgangsmáli í breytingum á skattkerfinu, að byrja á því í þrepum að fella algerlega út hátekjuskattinn.

Menn hefðu fremur átt að horfa til þeirra breytinga sem eru að verða í þjóðfélagi okkar þar sem margir hafa háar tekjur, hækka frekar viðmiðunartöluna varðandi launin en halda inni hátekjuskattsþrepi sem ég er svo sem ekkert endilega að segja að ætti að vera 7% en gæti t.d. alveg eins verið 3% eða 5%. Ég held að það hafi verið mistök, hæstv. forseti, af ríkisstjórninni að velja þessa forgangsröð.

Ég vil líka segja, hæstv. forseti, varðandi þær breytingar sem hér er verið að leggja til, að draga úr flötu tekjuskattslækkuninni um næstu áramót úr 2% og niður í 1%, sem var reyndar að kröfu ASÍ að við í Frjálslynda flokknum hefðum farið þá leið að hækka persónuafsláttinn í stað þess að lækka tekjuskattsprósentuna, sem kemur þeim frekar til góða sem hærri hafa tekjurnar. Það sýnir öll úttekt, hæstv. forseti, m.a. gögn sem lögð hafa verið fram um tekjuskiptingu af Stefáni Ólafssyni og öðrum, m.a. Landssambandi eldri borgara, að tekjuskattsgreiðslur hafa hækkað hlutfallslega hjá þeim sem lægri tekjur hafa og í raun mest á tekjulægstu hópana en lækkað hjá hinum tekjuhæstu, hæstv. forseti. Það hefur fylgt stefnu ríkisstjórnarinnar.

Frjálslyndi flokkurinn sagði fyrir síðustu alþingiskosningar að ef hér yrði svigrúm til mikilla skattalækkana þá ætti að hækka persónuafsláttinn. Í stefnuskrá okkar fyrir síðustu alþingiskosningar töldum við æskilegt að stefna að því að hækka persónuafsláttinn um 10 þús. kr. Þá spurðu menn: Kostar það ekki óhemjufjármuni að hækka persónuafsláttinn í 10 þús. kr.? Jú, það kostar svipað í fjármunum fyrir ríkissjóð og sú stefna sem ríkisstjórnin valdi, eða um 16 milljarða. Það kostar um 16 milljarða að fara á leið sem ríkisstjórnin valdi með flatri prósentulækkun. Það hefði kostað svipað að fara persónuafsláttarleiðina. En okkar aðferð hefði nýst betur fyrir þá sem lægri launin hafa. Rauntekjur þeirra hefðu hækkað en þær hefðu lækkað í krónutölu upp eftir stiganum en ekki sem hlutfall. Þar af leiðandi hefði skattalækkun þeirra sem eru með hæstu tekjurnar ekki verið eins mikil og með þeirri aðferð sem ríkisstjórnin valdi til að lækka skatta. Þess vegna knúði ASÍ á um breytingar fyrir þá sem lægri tekjurnar höfðu og krafðist þess að ríkisstjórnin félli frá 2% flatri skattalækkun um áramótin og færði annað prósentið yfir í persónuafslátt.

Þá má spyrja: Hvað má hækka persónuafsláttinn mikið fyrir 16 milljarða kr.? Eins og það var reiknað út fyrir mig fyrir tveimur árum þá jafngilti hækkun persónuafsláttar um 2.600 kr á mánuði, 4 milljörðum kr. þ.e. ef við ætlum að lækka skattprósentuna um 4%, þá kostaði hvert prósent í því 4 milljarða kr. Með sama hætti kostaði 4 milljarða kr. fyrir ríkissjóð að hækka persónuafsláttinn um 4.600 kr. á mánuði. Þar var í raun um svipaðar stærðir að ræða en munur á viðhorfum okkar í stjórnmálaflokkunum til þess hvaða leið skyldi fara. Ríkisstjórnin vildi fara þá leið sem ég hef getið um og er hér verið að breyta að kröfu ASÍ en við í Frjálslynda flokknum vildum hækka persónuafsláttinn ef fara ætti þessa leið.

Ég sagði það í fjárlagaumræðunni á þessu hausti, hæstv. forseti, og ætla að endurtaka úr þessum ræðustól í umræðum um breytingu á lögum um tekjuskatt að það er engan veginn sjálfgefið þótt vel hafi árað um sinn að inn komi mikið af eyðslupeningum. Ég kalla það eyðslupeninga vegna þess að hér hefur fólk eytt miklum fjármunum. Þá koma miklar tekjur inn vegna vörugjalda, innflutningsgjalda, tolla og virðisaukaskatts. Það eru tekjur af eyðslu. Það er ekki sjálfgefið að þær komi inn áfram og er t.d. mjög líklegt að bílainnflutningur dragist verulega saman. Veltutekjur af eyðslu í ríkissjóð eru ekki gefinn peningur um alla framtíð. En óhjákvæmilega efla þær tekjur ríkissjóðs þegar þensluástand er í landinu. Menn reyna vissulega að hafa áhrif á það ástand og vonandi verður hægt að draga úr þenslunni og verðbólgunni og þar af leiðandi er hætt við að draga muni úr þessum þenslutekjum.

Við erum hins vegar sammála um það, bæði ríkisstjórnarflokkarnir og stjórnarandstaðan, að lagfæra eigi kjör aldraðra og öryrkja. Ríkisstjórnin gerði samkomulag við eldri borgara um það. Við teljum að þar hafi verið of skammt gengið auk þess sem markmiðið nær langt inn í framtíðina. Það töldum við í stjórnarandstöðunni og sameinuðumst um tillögu um að laga ástandið hraðar og láta hlutina koma til framkvæmda þegar um næstu áramót í staðinn fyrir 2009 eins og var í tillögum ríkisstjórnarinnar. Það er hins vegar ljóst að sá pakki sem ríkisstjórnin samdi um við eldri borgara og öryrkja mun í framtíðinni kosta um 12 milljarða kr. á ári. Það að flýta málinu samkvæmt okkar tillögum kostar sennilega um 6 milljarða kr. Þar til viðbótar fáum við á okkur kostnað vegna þess að varnarliðið er farið úr landinu, við erum að taka yfir flugið og ýmsa öryggisþjónustu og eftirlitsstörf sem snúa að öryggi, flugi og þjónustu hér á landi. Allur þessi kostnaður mun falla á ríkið, efling Landhelgisgæslunnar, bygging nýs varðskips, stækkun flugflota Landhelgisgæslunnar, þyrlusveitin o.s.frv. Auk þess viljum við halda uppi velferðarkerfi og góðri þjónustu við sjúklinga og þá sem lasburða eru og minna mega sín.

Það er ekki sjálfgefið, hæstv. forseti, að sú skattalækkunarstefna sem nú er boðuð eigi við rök að styðjast þegar fram í sækir. Það getur verið að þetta gangi upp á næsta ári miðað við tekjurnar en þegar við lítum til ársins 2008, að því gefnu að það muni draga verulega úr þenslunni á næsta ári, er alls ekki víst að við getum leyft okkur, með tilliti til aukins kostnaðar, að halda áfram að lækka skatta. Þar að auki erum við í Frjálslynda flokknum á þeirri skoðun að sé svigrúm til skattalækkana þá eigi það að nýtast til þess að efla stöðu þeirra sem hafa lakari afkomu frekar en að það veiti þeim meira ráðstöfunarfé sem hafa þegar mest fyrir. Þarna greinir okkur á við stefnu ríkisstjórnarinnar og þess vegna höfum við í stjórnarandstöðunni talið að fara eigi leiðir sem jafna skattbyrðina til að meira verði til ráðstöfunar fyrir þá sem hafa lægri tekjur. En þeir sem hafa hærri tekjurnar ættu áfram að greiða sitt hlutfall a.m.k. eins og var og jafnvel meira ef á þarf að halda. Við teljum að horfa eigi til þess að skattkerfið er líka tekjujöfnunartæki en um það veit ég að ríkisstjórnarflokkarnir og við í stjórnarandstöðunni erum ósammála.

Ég velti fyrir mér, hæstv. forseti, af því að hér var talað um barnafjölskyldur og skattfrelsi, greiðslum frá bæjarfélögum til foreldra leikskólabarna eða barna sem ekki eru á leikskólaaldri sem yrðu undanþegnar skattgreiðslum. Ég skil hugsunina á bak við þetta en mér finnst sú leið vekja margar spurningar. Við getum t.d. spurt: Hvað með bætur, svokallaðar félagslegar bætur, frá sveitarfélögum til öryrkja, aldraðra eða annarra sem hafa mjög litlar tekjur til að þeir komist af? Framfærslulífeyririnn frá Tryggingastofnun og lífeyrisréttindi sumra eru það lítil að þau duga ekki fólki til eðlilegrar framfærslu. Það er því margt sem þarf að skoða, hæstv. forseti, varðandi einstakar greiðslur frá sveitarfélögum til borgaranna, hvort sem það eru bætur sem eiga að brúa bil frá fæðingarorlofi fram að því að börn komast á leikskóla eða hvort það eru aðrar bætur sem gera fólki kleift að komast af í viðkomandi samfélagi.

Hæstv. forseti. Ég tel að málið sem við ræðum hér þurfi mikillar skoðunar við almennt. Við þurfum að velta því vel fyrir okkur hvaða skref við ætlum að stíga. Ég fagna því að hækka eigi persónuafsláttinn þótt hann verði ekki til þess að skattleysismörkin fari hærra en í kringum 90 þúsund kr. Það er auðvitað algerlega rétt sem komið hefur fram, að ef skattleysismörkin hefðu átt að halda raungildi sínu frá því að persónuafslátturinn var tekinn upp þá hefðu skattleysismörkin í dag þurft að vera um 130 þús. kr. miðað við árið 1988, (Gripið fram í: Miðað við launaþróun.) miðað við launaþróun.

Virðulegur forseti. Hér er talað um tekjutap ríkissjóðs og farið um það nokkrum orðum. Ég ætla ekki að gera það að sérstöku umræðuefni hér. Þar er annars vegar talað um 12,2 milljarða kr. og hins vegar um 13 milljarða og sagt:

„Eins og fram kemur í athugasemdum við frumvarpið er áætlað að lögfesting þessara ákvæða leiði til þess að tekjur ríkissjóðs verði 800 millj. kr. hærri en annars hefði orðið.“

Ég ætla ekki að gera það að sérstöku umræðuefni. Ég held að ég sé búinn að koma inn á þau atriði sem mér fannst skipta mestu máli. Ég vona að sú umræða sem hér hefur farið fram komist til skila í efnahags- og viðskiptanefnd og menn fari þar vandlega yfir málið.