133. löggjafarþing — 22. fundur,  7. nóv. 2006.

lækkun virðisaukaskatts á geisladiskum.

[13:36]
Hlusta

Halldór Blöndal (S):

Hæstv. forseti. Mér Þykir vænt um að heyra það að hv. þm. Össur Skarphéðinsson er nú orðinn þeirrar skoðunar að rétt sé að láta geisladiska fylgja prentuðu máli varðandi virðisaukaskatt. Þetta mál hefur verið til athugunar og verður áfram. En svo var það líka þegar við vorum saman í ríkisstjórn að ég man eftir því að þá lagðist Alþýðuflokkurinn mjög hart gegn því að láta hljómdiskana fylgja prentuðu máli, eins og hv. þingmaður getur gengið úr skugga um ef hann flettir upp í þingtíðindum og rifjar upp umræður um þessi mál og hvernig ráðherrar Alþýðuflokksins töluðu á sínum tíma.

Þetta gefur á hinn bóginn tilefni til að segja að almennt er meira að marka það sem stjórnmálamenn segja þegar þeir eru í stjórnarmeirihluta en þegar þeir eru í stjórnarandstöðu og láta allt fjúka. Ef það er einhver maður í þingsalnum sem lætur allt fjúka þá er það hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Stundum held ég að hann meini það sem hann segir, stundum er ég ekki viss, og stundum er ég sannfærður um að hann meinar ekki orð af því sem hann segir.