133. löggjafarþing — 22. fundur,  7. nóv. 2006.

fjölgun útlendinga á Íslandi.

[13:51]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég held að mjög mikilvægt sé að við ræðum þetta mál sem hér er til umfjöllunar á réttum forsendum. 1. maí síðastliðinn var enginn örlagadagur í þessu máli. 1. janúar næstkomandi verður það heldur ekki. Þó svo að ríkisstjórnin hafi nú ákveðið að nýta sér aðlögunartímann gagnvart Rúmeníu og Búlgaríu þá þýðir það fyrst og fremst að taka þarf miklu fastar á málum hvað varðar starfsmannaleigurnar, ábyrgð atvinnurekenda, þ.e. notendaábyrgðina sem snýr að starfsmannaleigunum. Því það var auðvitað málið sem menn voru að reyna að takast á við 1. maí þegar þeir ákváðu það að fólk ætti að geta komið til landsins á eigin forsendum en ekki einvörðungu í gegnum starfsmannaleigur.

Fólk hefur komið hingað til landsins af því að kallað hefur verið eftir því og það finnur sér farveg inn í landið, annaðhvort í frjálsri för eða í gegnum starfsmannaleigur. Stjórnvöld og atvinnurekendur hafa kallað eftir erlendu vinnuafli en þau hafa kannski gleymt því að það kom hingað að sjálfsögðu fólk með langanir, með þrár, með væntingar um gott líf. Þessu fólki verðum við að mæta á þeirra forsendum. Þetta eru íslenskir skattgreiðendur og þeir eiga rétt á þjónustu við hæfi.

Vandamálið sem við stöndum andspænis í hnotskurn er það að íslenska hagkerfið hefur einfaldlega verið þanið of mikið. Það er ójafnvægi á öllum sviðum. Það er verkefni sem við verðum að takast á við. Ójafnvægið lýtur að háum vöxtum, að verðbólgu, að gengissveiflu, að viðskiptahalla, að miklu flæði vinnuafls inn í landið. Það er verkefni okkar að takast á við að koma á jafnvægi í samfélaginu og huga að fólki og samfélagi en ekki bara hagvexti. Þegar ég segi fólki og samfélagi þá á ég bæði við okkur sem erum fædd hér og uppalin og eins hina sem hafa kosið að setjast hér að og auðga okkar samfélag með aðsetri sínu hér á landi. Þetta er ekki verkefni sem núverandi ríkisstjórn ræður við. Það þarf nýja ríkisstjórn til þess.