133. löggjafarþing — 22. fundur,  7. nóv. 2006.

fjölgun útlendinga á Íslandi.

[13:53]
Hlusta

Gunnar Örlygsson (S):

Virðulegi forseti. Hæstv. félagsmálaráðherra Magnús Stefánsson hefur glögglega komið til skila að varast ber öfgar í þeirri umræðu sem fram fer í dag.

Frjálslyndi flokkurinn hefur því miður farið of geyst í umræðuna á stundum með öfgafullum hætti. Það er athyglisvert að flokkur skuli breyta grundvallarstefnu og afstöðu sinni á viðhorfi til útlendinga eins og raunin hefur verið. Umburðarlyndir og frjálslyndir draga ekki lengur vagninn í þessum efnum.

Árið 2002 lögðu þingmenn Samfylkingar fram breytingartillögu við frumvarp um atvinnuréttindi útlendinga. Breytingartillögurnar voru settar fram til að liðka fyrir aðgengi erlendra starfsmanna inn á íslenskan vinnumarkað. Í ræðu sinni um málið árið 2002 ítrekaði hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, stuðning sinn við breytingartillögur Samfylkingarinnar.

Fyrir réttu ári í umræðum utan dagskrár á Alþingi um sömu mál hnykkti formaður Frjálslynda flokksins á undir lok ræðunnar og sagði, með leyfi forseta, orðrétt:

„Ég tel hins vegar í ljósi reynslunnar ekki sjálfgefið að við tökum okkur aftur það vald hér í Alþingi að takmarka frjálsa för launafólks frá Evrópusambandinu.“

Hér er nú vert að staldra örlítið við og spyrja hvort hún sé ekki vægast sagt undarleg og ódýr þessi stefnubreyting hjá Frjálslynda flokknum.

Hins vegar er það rétt að okkur ber að taka umræðuna föstum tökum og spyrja okkur hvert skuli stefna. Eigum við að taka harðar á íslenskum fyrirtækjum sem brjóta á lögbundnum rétti starfsmanna sinna? Getur verið að löggjafi og dómsvaldið geti tryggt samborgurum okkar, bæði aðfluttum borgurum sem og þeim sem hafa fæðst hér á landi og lifað hér allt sitt líf, meira öryggi og um leið tryggara starfsumhverfi? Þetta er umræðan sem við eigum að taka af fullum þunga. Við eigum að tala um útlenda samborgara okkar en ekki erlent vinnuafl. Við eigum að tala um félaga okkar af virðingu og forðast alla öfga í þessari umræðu.