133. löggjafarþing — 22. fundur,  7. nóv. 2006.

fjölgun útlendinga á Íslandi.

[13:55]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það er skiljanlegt að mönnum bregði í brún þegar tölur birtast um mjög snögga og mikla fjölgun fólks af erlendum uppruna sem flutt hefur til landsins eða dvelur hér tímabundið vegna vinnu. Snöggir og miklir búferlaflutningar hvort sem er innan lands eða milli landa valda alltaf í eðli sínu ákveðnu umróti.

En það er afar margt sem menn þurfa að vanda sig við í þessari umræðu og forðast ber allar alhæfingar og að blanda ólíkum hlutum saman. Það er t.d. mikill munur á fjölskyldufólki sem hingað flyst erlendis frá til varanlegrar búsetu og erlendum farandverkamönnum sem hingað koma án fjölskyldu til tímabundinnar vinnu.

Margir verða eflaust til að segja að umræðan sé í öllu falli þörf og af hinu góða. Ekki skal ég draga úr því, enda sé hún á hófstilltum og uppbyggilegum nótum og fjalli yfirvegað um það vandamál sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir. Hún verði ekki til þess að æsa upp útlendingaandúð og aðgreiningarhyggju. Vinstri hreyfingin – grænt framboð hafnar því að ræða þessi mál á þeim nótum.

Það er mikilvægast að átta sig á því að það er ekki, ég endurtek, ekki, við fólkið að sakast sem hingað kemur og fer í störf sem því standa til boða eða það er beinlínis fengið hingað til að vinna. Það voru ekki pólskir eða kínverskir verkamenn sem tóku ákvörðun um að byggja Kárahnjúkavirkjun. Það eru þær aðstæður í hagkerfinu sem hér hafa skapast sem soga til sín þetta fólk.

Við skulum ekki gleyma að fyrir 14 árum var sú ákvörðun tekin að Ísland skyldi verða aðili að hinum samevrópska opna vinnumarkaði. Við vöruðum við því þegar ákveðið var að ráðast í stóriðjuframkvæmdirnar að þær mundu valda jafnvægisleysi á íslenskum vinnumarkaði. Fáir tóku undir með okkur þá. En við höfnum því hins vegar að ræða þessi mál nú eins og vandamálið sé það fólk sem er hingað komið fyrir tilverknað okkar Íslendinga sjálfra og er hér á okkar ábyrgð. Við höfnum allri aðgreiningarhugsun í þessum efnum. Við höfnum því að þetta séu þau og við.