133. löggjafarþing — 22. fundur,  7. nóv. 2006.

fjölgun útlendinga á Íslandi.

[14:02]
Hlusta

Guðrún Ögmundsdóttir (Sf):

Frú forseti. Við verðum að greina á milli þess hvað eru útlendingar og innflytjendur. Við megum ekki rugla fólk svona ofboðslega í ríminu með því að ægja öllu saman. Stærsti hópurinn kemur hingað vegna vinnu og hún er næg sem stendur. Þetta er ekki hópur sem leggst á félagslega kerfið, það vita allir, og þetta fólk, sem er stærsti hópurinn stoppar ekki mjög lengi. Við verðum að tryggja samráð og eftirlit og að ekki verði undirboð á markaðnum og raunveruleikinn komi ekki þannig á bakið á okkur. Við verðum að standa vörð um réttindi farandverkafólks. Þar er hlutverk verkalýðshreyfingar, atvinnurekenda, Vinnumálastofnunar og yfirvalda mjög ríkt, þar er skyldan mjög rík. Því miður hefur ríkisstjórnin ekki komið með heildarstefnumótun í þessum málaflokki en það höfum við í Samfylkingunni gert. Það er plagg sem ég legg til að ríkisstjórnin leggist yfir því að við erum algjörlega tilbúin til þess að vinna saman í því máli.

Við þurfum að uppræta fordóma en ekki að kynda undir þá. Það er hættan í umræðunni í dag. Þar er ábyrgð okkar þingmanna afar mikil. Við eigum að vera talsmenn mennsku og skilnings í samfélaginu og við eigum að tala niður dómhörku og fordóma sem hér liggja undir niðri. Okkar ábyrgð er gríðarlega mikil í málinu og við eigum ekki að dansa á línu rasismans, það er hvorki þingmönnum né þjóðinni samboðið.