133. löggjafarþing — 22. fundur,  7. nóv. 2006.

fjölgun útlendinga á Íslandi.

[14:04]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Við erum eitthvert minnsta málsamfélag sem þekkist, við erum ákaflega lítil þjóð, það er mjög eðlilegt að menn vilji vera á varðbergi og telji rétt að vera á varðbergi í stórum, opnum heimi. Því var það rétt og skylt fyrir nokkrum árum að ríkisstjórnin legði hér fram lagafrumvarp um útlendinga, lög nr. 96/2004. Þau lög þrengdu mjög aðgang erlends fólks til Íslands. Þau voru samin að danskri fyrirmynd. Stjórnin og stjórnarsinnar urðu fyrir miklu aðkasti stjórnarandstöðunnar fyrir að gera þetta, við vorum taldir mjög miklir óvinir útlendinga, þetta væri mjög rangt af okkur. Það voru mörg litbrigði sem voru notuð í því orðasafni þegar menn mótmæltu.

Stjórnarandstaðan vildi öll fara gegn þessu frumvarpi, 24, 31 var með, það voru stjórnarsinnar. Einn af þeim sem greiddu atkvæði gegn frumvarpinu var hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson, þó að hann hafi nú gerst umsnúningur og skipt um skoðun. Það var rétt að geta þessa. Við töldum rétt að takmarka þetta. Í dag er aðgangur útlendinga að Íslandi mjög takmarkaður nema þeirra sem koma frá Evrópusambandinu.

Við gerðumst aðilar að EES 1993 með þessu ákvæði inni. Það var engin athugasemd gerð við frjálsa för, við tókum alla Vestur-Evrópu inn. Síðan gerðum við samningana um hin níu ríkin og þegar við ákváðum að taka þetta inn 2006 var það vegna þess að samstaða var meðal aðila vinnumarkaðarins, ASÍ og atvinnurekenda um að gera það vegna þess að starfsmannaleigurnar, þjónustuleigurnar vildu fá þetta út. Þess vegna vildu menn og töldu rangt annað en að opna þetta. Sama gildir núna um Búlgaríu og Rúmeníu. Þetta er opið og verður opið í fimm ár. Við getum lokað þessu eftir fimm ár, fengið svo sérstakan rökstuðning fyrir að gera það í tvö ár í viðbót. (Forseti hringir.) Síðan er það opið.