133. löggjafarþing — 22. fundur,  7. nóv. 2006.

fjölgun útlendinga á Íslandi.

[14:09]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég sé ekkert að því þó að ég hafi greitt atkvæði gegn útlendingalögunum á sínum tíma. Við í Frjálslynda flokknum erum ekkert á móti útlendingum. Við vorum líka reiðubúin til þess að skoða þetta frjálsa flæði með jákvæðum huga í upphafi eins og kom fram í ræðu hv. þm. Guðjóns Arnars Kristjánssonar á sínum tíma. Þetta höfum við sjálf bent á.

En þegar við fórum að skoða þessi mál af skynsemi og yfirvegun og skoða þróunina sáum við einfaldlega að þetta gekk ekki upp og hér stefndi í stórslys fyrir íslensku þjóðina, það var það sem gerðist. Það sem við höfum séð gerast núna er einmitt þetta. Ríkisstjórnarflokkarnir plötuðu Samfylkinguna og Vinstri græna upp úr skónum í vor í störfum félagsmálanefndar, komu þar með loforð um að fara í stefnumótun og alls konar vinnu en það hefur ekki verið staðið við þau loforð. Það kom fram í ræðum þingmanna Samfylkingar, a.m.k. þá, að þeir féllust á þetta frumvarp um frjálst flæði einmitt vegna þess að ríkisstjórnin hafði gefið loforð um að farið yrði í þá vinnu vegna þess að við sáum að hér var allt mölbrotið og sundurtætt og engin stefna fyrir hendi. Þetta hefur hins vegar ekki verið gert.

Ríkisstjórnarflokkarnir gerðu þetta að yfirlögðu ráði. Þeir notuðu þetta sem hagstjórnartæki til að halda aftur af launaskriði í landinu, opna fyrir allar flóðgáttir — á þessu tímabili var mikil þensla — opna fyrir allar flóðgáttir til að halda aftur af launaskriði í landinu í viðleitni til þess að reyna að halda aftur af verðbólgu. Það var þetta sem vakti fyrir þeim. Auðvitað hefðu þeir átt að fara í hina áttina, hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson veit það mætavel að það hefði einmitt verið gott hagstjórnartæki að stöðva frjálsa flæðið og þannig slá á þensluna. Það var því miður ekki gert.

Stjórnarandstöðuflokkarnir, þ.e. Samfylkingin og Vinstri grænir brugðust hins vegar launþegum nú í vor, brugðust þeim illilega — og það er mjög alvarlegt mál fyrir þá flokka — með því að opna fyrir þetta frjálsa flæði, með því að opna fyrir aðför að markaðskjarasamningum á Íslandi og með þessari aðför að verkalýðshreyfingunni, alþýðunni í landinu, gerðu þeir mjög alvarleg mistök, mistök sem (Forseti hringir.) eiga eftir að verða þeim mjög dýr. (Gripið fram í.)