133. löggjafarþing — 22. fundur,  7. nóv. 2006.

endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

95. mál
[14:20]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Hér ræðum við frumvarp til laga um breyting á lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi. Það er ekki oft sem ég get stigið í pontu á eftir hæstv. iðnaðarráðherra og sagt: Nú er ég sammála hæstv. ráðherra. En það er ástæða til að gera það nú.

Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum stutt atvinnuuppbyggingu af því tagi sem þessi ívilnandi aðgerð hefur leitt af sér. Það er kunnara en frá þurfi að segja hve mikil driffjöður þetta lagaákvæði hefur verið fyrir kvikmyndagerðina. Þó að hér sé um erlenda aðila að ræða þá er líka um samstarfsverkefni að ræða þar sem íslenskir kvikmyndagerðarmenn fara á erlenda grund, kannski til náms, fá til liðs við sig samverkamenn sem koma hingað með hugmyndir sínar og sína erlendu áhöfn og vinna verkefni á Íslandi.

Ég fullyrði það og þekki það af eigin raun að hér hefur verið um mikið og gefandi samstarf að ræða sem hefur verið mikil hvatning fyrir íslenskt kvikmyndagerðarfólk. Mér finnst skipta máli að við á Alþingi Íslendinga áttum okkur á því hvílík gríðarleg tækifæri liggja í þessari atvinnugrein og um leið í öðrum listgreinunum. Það er ekki bara kvikmyndagerðin sem getur verið driffjöður fyrir innlenda listamenn og innlenda listsköpun heldur eru það aðrar listgreinar einnig. Það er gaman frá því að segja og geta þess að auðvitað koma margar listgreinar saman í kvikmyndagerðinni. Þar þarf að nýta krafta leikara, leikstjóra og tæknifólks, sem eru listamenn á sínu sviði, tónlistarfólk og þar fram eftir götunum.

Ég fullyrði að þetta fyrirkomulag hefur verið lyftistöng fyrir geirann og fyrir flóruna á akrinum meðal innlendra listamanna.

Í greinargerð með frumvarpinu er þess getið að árið 2004 hafi látið nærri að tengja mætti 600–900 ársverk við gerð kvikmynda og myndbanda hér á landi. Að vísu segir að tengslin séu oft óbein og afleidd en þetta munu vera 0,5–0,8% ársverka hér á landi. Það er ekki svo lítið. Við skulum athuga það að hér er gróandi iðnaður, iðnaður sem fleygir mjög fram. Við höfum fylgst með kvikmyndagerðarmönnunum okkar og hve miklar framfarir hafa orðið í greininni. Við eigum orðið leikstjóra á heimsmælikvarða og leikara sem eru eftirsóttir leikarar á erlendri grundu og við eigum að taka þessu fagnandi.

Síðast en ekki síst vil ég auðvitað nefna að hér eru tækifæri til að nýta náttúru okkar án þess að níðast á henni. Hér er atvinnuuppbygging sem við eigum að horfa til í auknum mæli. Við eigum að skoða öll þau tækifæri sem við höfum til að breikka möguleikana enn fremur. Ég styð hæstv. iðnaðarráðherra af heilum hug í þessu máli.