133. löggjafarþing — 22. fundur,  7. nóv. 2006.

endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

95. mál
[14:23]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að spilla ánægju hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur með þetta frumvarp og allra síst vil ég draga úr því að þessi sértæka aðgerð sem hér um ræðir hafi haft veruleg jákvæð áhrif á uppbyggingu greinarinnar hér á landi. En nú velti ég fyrir mér hvort hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir telur að það komi til greina að beita sértækum aðgerðum á fleiri sviðum, t.d. á sviði fjármálaviðskipta, sem er sennilega sú atvinnugrein hér sem vaxið hefur hraðast á undanförnum árum.

Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður gæti tekið undir þau sjónarmið sem fram hafa komið, m.a. af hálfu nefndar sem skipuð var af fyrrum forsætisráðherra, þar sem lagðar eru til ýmsar sértækar lausnir til að efla fjármálastarfsemi á Íslandi og fjölga störfum á því sviði, auka hagvöxt og ná hingað fjármagni sem ella mundi ekki hingað koma. Ég velti fyrir mér hvort það jákvæða viðhorf sem hv. þingmaður lýsti til þessara sérlausna ætti bara við um þessa tilteknu grein eða hvort til greina kæmi að mati þingmannsins að beita þessari aðferð á fleiri sviðum.