133. löggjafarþing — 22. fundur,  7. nóv. 2006.

endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

95. mál
[14:39]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breyting á lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, þ.e. framlengingu þeirra heimilda.

Árið 1991 varð sú stefnubreyting á Íslandi að við fórum í almennar aðgerðir í staðinn fyrir sértækar aðgerðir í skattamálum gagnvart fyrirtækjum. Afleiðingarnar hafa sýnt sig í stóraukinni grósku í atvinnulífinu, miklum hagnaði fyrirtækja, mikilli hækkun launa o.s.frv. Það hefur sem sagt sýnt sig að almennar aðgerðir eru af hinu góða. Áður voru hér í gangi alls konar sértækar aðgerðir, sérstakar aðgerðir fyrir bátaútgerðina, aðrar fyrir togaraútgerðina, enn aðrar fyrir landbúnaðinn o.s.frv.

Það frumvarp sem við hér ræðum er um sértækar aðgerðir, aðgerðir til að styðja eina sérstaka atvinnugrein. Þess vegna hlýt ég að vara við því. Ég vara við þessum sértæku aðgerðum. Ég spyr: Getum við ekki gert það sama fyrir öll önnur íslensk fyrirtæki? Getur ekki verslunin eða fjármálastarfsemin fengið svipaðar aðgerðir þannig að það atvinnulíf blómstri líka? Ég fullyrði að þau fyrirtæki mundu ekki síður blómstra ef hinni köldu skattakrumlu ríkisins yrði létt af þeim því að hér er að hluta til verið að endurgreiða skatt.

Við höfum verið með sértækar aðgerðir undanfarið, aðallega gagnvart stóriðju og svo gagnvart kvikmyndaiðnaði og ég mundi vilja að menn færu heldur hina leiðina, nefnilega þá að veita íslenskum fyrirtækjum sömu kjör og þessum atvinnugreinum. Það má segja um kvikmyndagerð að sennilega er enginn atvinnurekstur eins áhættusamur, annaðhvort gengur kvikmynd eða ekki. Þetta er nánast einskiptisáhætta, það er eins og að kasta upp krónu, annaðhvort tapa menn stórkostlega eða þeir græða stórkostlega. Í þessari atvinnugrein eru líka afskaplega há laun og mér finnst dálítið skorta á það að sérstaklega fulltrúar Vinstri grænna í umræðunni hafi glaðst yfir því að verið sé að niðurgreiða há laun, því að í rauninni er verið að því. Jafnvel eru launin í kvikmyndagerð, a.m.k. erlendis, svo há að laun bankastjóra á Íslandi verða hjóm eitt í þeim samanburði. (GAK: Ertu að mæla fyrir niðurgreiðslu á bönkum …?) Nei, nei, ég er ekki að mæla fyrir niðurgreiðslu á bönkum, frú forseti, ég bendi bara á það að hér niðurgreiðir ríkið há laun og þar af leiðandi getur þessi kvikmyndaiðnaður, sérstaklega útlenskur, borgað enn hærri laun.

Í 1. gr. frumvarpsins sem er breyting á 4. gr. laganna stendur að við mat á umsóknum um endurgreiðslu skuli „afla álits sérfróðra aðila um ætlað listrænt gildi viðkomandi framleiðslu“. Þetta er sem sagt opinber list sem við erum tala um, við erum að tala um mat á opinberri list og það er það sem það snýst um. Þetta á að vera íslenskt o.s.frv., sem sagt hið opinbera á að meta hvað er list í landinu.

Það getum við líka gert, við getum farið að tala um fjármálalist hjá fjármálafyrirtækjunum með sama hætti, alls konar snilli sem birtist í því að kaupa og selja fyrirtæki og hlutabréf. Ég get mögulega fallist á þau rök sem standa á bak við þetta, þetta hefur valdið ákveðinni grósku í þessari atvinnugrein, en ég vara við því að menn séu með svona sértækar aðgerðir. Ég vildi miklu frekar sjá almennar aðgerðir og enn frekari einföldun á rekstrarumhverfi íslenskra fyrirtækja. Ég held að það sé meira virði, frú forseti, að einfalda rekstrarumhverfi fyrirtækja en endilega að lækka skattana. Það er svo mikið umstang í kringum rekstur fyrirtækja sem kostar óheyrilega mikið. Ég legg til að menn skoði í iðnaðarráðuneytinu einföldun á alls konar reglum sem þar eru í gangi og ég beini því til hæstv. iðnaðarráðherra hvort ekki megi gera umhverfi fyrirtækjanna liprara að því leyti.

Varðandi þetta frumvarp er ég beggja blands. Ég vara við sértækum aðgerðum, vil frekar sjá almennar aðgerðir og skora á menn að halda áfram á þeirri braut.