133. löggjafarþing — 22. fundur,  7. nóv. 2006.

endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

95. mál
[14:44]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Í tilefni orða hv. þingmanns um það að við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs tölum hér fyrir því að niðurgreidd séu einhver ofurlaun vil ég leyfa mér að halda því fram að laun þau sem íslenskir listamenn og íslenskt tæknifólk hefur fengið fyrir að starfa í kvikmyndum eru að mínu mati og þar sem ég þekki til bara eðlileg laun. Við erum ekki komin inn á þá braut að okkar íslensku kvikmyndaleikarar eða kvikmyndaleikstjórar fari á einhverja Hollywood-taxta. Það er ekki svo og hv. þingmaður verður auðvitað að horfast í augu við það.

Kvikmyndageirinn inniheldur afar fjölbreytta flóru og við vitum auðvitað að alþjóðleg stórfyrirtæki eða bandarísku stórfyrirtækin geta greitt gríðarlega há laun. Hv. þingmaður veit auðvitað af inntaki þess sem ég sagði áðan að það var ekki ætlun mín að mæla með niðurgreiðslu á slíkum launum heldur sagði ég eingöngu að þessar tímabundnu sértæku aðgerðir hefðu skilað árangri og að ég mælti með að þeim yrði þar af leiðandi fram haldið. Ég styð það.

Ég get hins vegar í prinsippinu alveg verið sammála hv. þingmanni um það að almennar aðgerðir eru auðvitað vænlegri og að við eigum miklu frekar að líta til þeirra en sértækra aðgerða þó svo að hægt sé að fara í átak til atvinnuuppbyggingar á þeim nótum sem hér hefur verið gert. Ég hef hins vegar andmælt hinum sértæku aðgerðum sem stóriðjan hefur fengið og þar eigum við hv. þm. Pétur H. Blöndal örugglega samleið í skoðunum. Stóriðjan á ekki að búa við sértækar aðgerðir eins og hún hefur búið við alla tíð, enda er þar um að ræða atvinnugrein sem að mínu mati afrænir eða er arðræningi á náttúruauðlindir Íslands en það eru kvikmyndirnar sem hér um ræðir alls ekki. Þar finnst mér vera himinn og haf á milli.