133. löggjafarþing — 22. fundur,  7. nóv. 2006.

endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

95. mál
[14:50]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa umræðu sem hefur verið fróðleg og málefnaleg þótt hún hafi líka að hluta til snúist um aðra hluti en það frumvarp sem hér liggur frammi.

Það er rétt sem fram hefur komið að í þessari listrænu starfsemi, sem um leið er bæði víðtæk þjónustustarfsemi og iðnstarfsemi, fer fram mjög mikilvæg þekkingaröflun fyrir íslenskt menningarlíf og íslenskt atvinnulíf og fyrir íslenska þjóðfélagið yfirleitt. Þannig má segja að um sé að ræða mjög gildan þátt í víðtækri atvinnustefnu stjórnvalda sem miðar að því að efla hér og styrkja þekkingarsamfélag með áherslu á listgreinar og margar þjónustugreinar samhliða því sem iðnaði fleygir þá fram við sömu framkvæmdir og verkefni.

Ég held að við getum líka flest verið sammála um að hér er um að ræða þróunarkostnað, hér er um að ræða stuðning við þróun á nýjum sviðum í íslensku atvinnulífi. Það út af fyrir sig getur líka réttlætt það að um sértækar aðgerðir sé að ræða og þá er litið svo til að um tímabundnar aðgerðir sé að ræða meðan þróun og frumvöxtur á sér stað í viðkomandi grein. Við verðum að sjálfsögðu að horfa til samkeppnisstöðu líka. Nágrannar okkar eru að grípa til sambærilegra aðgerða í stórum stíl og það breiðist út og við verðum að bregðast við því. Þess vegna lýk ég máli mínu á því að endurtaka það sem ég sagði áður að ég vísa því til hv. þingnefndar að hækka endurgreiðsluhlutfallið úr 12% í 14%.