133. löggjafarþing — 22. fundur,  7. nóv. 2006.

greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

266. mál
[14:52]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Frumvarpið er 266. mál þingsins á þskj. 275.

Á árinu 1999 voru samþykkt á Alþingi lög um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Með lögunum var gjaldi sem eftirlitsskyldir aðilar greiða til að standa straum af rekstri Fjármálaeftirlitsins breytt á þann veg að tryggt væri að það uppfyllti skilyrði stjórnarskrárinnar um skattlagningarheimldir. Þetta þýddi m.a. að festa þurfti álagningarhlutfall í lögum í stað þess að kveða einungis á um hámark álagningar. Þessum álagningarhlutföllum þarf að breyta á hverju haustþingi enda ógerlegt að ákveða nákvæm hlutföll álagningar á flokka eftirlitsskyldra aðila til lengri tíma en eins árs í senn. Samkvæmt þessu hefur frumvarp til breytinga á þessum lögum verið lagt fram á hverju haustþingi að fenginni skýrslu Fjármálaeftirlitsins um áætlaðan rekstrarkostnað næsta árs, að fenginni athugun ráðuneytisins á skýrslunni og að fengnu áliti samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila.

Með frumvarpinu er álagningarhlutfalli einstakra tegunda eftirlitsskyldra aðila breytt. Eru álagningarhlutföll á viðskiptabanka, sparisjóði, lánafyrirtæki, verðbréfafyrirtæki og verðbréfamiðlanir lækkuð en álagningarhlutföll vegna annarra eftirlitsskyldra aðila hækkuð. Mismunur á breytingum hvað þetta varðar skýrist af mismunandi þróun álagningarstofna einstakra flokka eftirlitsskyldra aðila en rekstraráætlun Fjármálaeftirlitsins fyrir árið 2007 gerir í meginatriðum ráð fyrir óbreyttri hlutfallslegri skiptingu eftirlitsgjaldsins milli þessara flokka.

Áætlað álagt eftirlitsgjald á yfirstandandi ári nemur 435 millj. kr. en frumvarpið gerir ráð fyrir 580 millj. kr. árið 2007 sem er hækkun um 145 millj. kr. eða 33%. Áætlað er að rekstrarkostnaður Fjármálaeftirlitsins á þessu ári nemi 410,5 millj. kr. en áætlaður rekstrarkostnaður á árinu 2007 verður 601,1 millj. kr. sem er hækkun um 190,6 millj. kr. eða 46,4%.

Aukning launakostnaðar milli ára skýrist af fyrirséðum samningsbundnum launahækkunum og áhrifum launahækkana í samræmi við áætlun ársins 2006 en þær nema alls 29 millj. kr. Hækkun um 16,4 millj. kr. er vegna fjölgunar starfsmanna að meðaltali úr um 40 samkvæmt áætlun fyrir árið 2006 í um 42 samkvæmt áætlun fyrir árið 2007. Hækkun um 25,9 millj. kr. er vegna áætlaðs svigrúms til að bregðast við óvæntum útgjöldum og launaskriði. Loks er gert ráð fyrir hækkun um 22,7 millj. kr. vegna samninga við starfsmenn um biðtíma í 2–3 mánuði eftir starfslok hjá stofnuninni. Nema þessir framangreindu liðir alls 93,9 millj. kr. Til viðbótar teljast með í hækkun launakostnaðar 33,4 millj. kr. sem er áætluð sérstök eingreiðsla á árinu 2007 vegna samkomulags um uppgjör skuldbindinga við Lífeyrissjóð bankamanna. Í fylgiskjali IV með frumvarpinu er nánar gerð grein fyrir samkomulagi því er liggur til grundvallar þessum kostnaði.

Þá er rétt að vekja athygli á tveimur efnislegum breytingum í frumvarpinu frá gildandi lögum. Í fyrsta lagi er lagt til að Fjármálaeftirlitinu sé heimilt að mynda takmarkaðan sjóð til að mæta óvæntum rekstrarútgjöldum og tímamismun vegna inngreiðslna álagðs eftirlitsgjalds og rekstrarútgjalda innan ársins. Í öðru lagi er lagt til að breyta ákvæðum þeim er varða möguleika þeirra er eigi vilja una álagningu eftirlitsgjalds til að fá álagningu hnekkt eða breytt til samræmis við þær breytingar sem gerðar voru á lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og samþykktar voru á Alþingi 13. júní sl.

Hæstv. forseti. Meðal fylgiskjala með frumvarpinu er skýrsla Fjármálaeftirlitsins til viðskiptaráðherra um starfsemi eftirlitsins. Í skýrslunni er fjallað um eftirlit með einstökum sviðum fjármálamarkaðanna auk þess sem greint er frá þróun og horfum á íslenskum fjármálamarkaði og áherslum í starfi Fjármálaeftirlitsins næstu missiri. Er skýrslan fróðleg lesning öllum þeim sem vilja kynna sér þróun á innlendum fjármálamörkuðum.

Ég mælist til þess að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. efnahags- og viðskiptanefndar.