133. löggjafarþing — 22. fundur,  7. nóv. 2006.

álbræðsla á Grundartanga.

93. mál
[15:09]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. iðnaðarráðherra svörin. Mér sýnist að eftir áralangar sértækar aðgerðir í þágu stóriðjunnar heyri þær nú sögunni til. Ég fagna því þó að þetta ákvæði sé inni áfram varðandi frádrátt vaxtakostnaðar. Eins og ég segi þekki ég ekki til þeirra laga það vel að ég viti nákvæmlega hvað það felur í sér.

Auðvitað hlýtur það að vera takmark okkar að almennt búi fyrirtæki við sömu kjör og að um þau gildi sömu lög hvað varðar skatta og annað það er lýtur að kröfum og skyldum. Hér sýnist mér að verið sé að stíga skref í átt til þess sem við hv. þm. Pétur H. Blöndal vorum að ræða áðan, að auðvitað eigi almennt skattumhverfi að eiga við sem flesta þó svo að hægt sé að fella sig við tímabundin sérákvæði á sumum sviðum.