133. löggjafarþing — 22. fundur,  7. nóv. 2006.

álbræðsla á Grundartanga.

93. mál
[15:12]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Í tilefni orða síðasta ræðumanns, hv. þm. Jóhanns Ársælssonar, verð ég að viðurkenna að það renna á mig tvær grímur. Ég tel að við þurfum að fá að vita það við þessa umræðu hvort verið sé að búa Norðuráli sama skattumhverfi og fyrirtækjum almennt er búið hér á landi. Það var á hæstv. ráðherra að skilja í andsvari við mig áðan að svo væri, en nú kemur hv. þm. Jóhann Ársælsson með ábendingar um að svo þurfi ekki að vera eða sé mögulega ekki varðandi t.d. álögur fasteignagjalda eða álögur að öðru leyti en sem varða t.d. tekjuskattinn.

Ég held líka að við þurfum að vita hvað það er sem er fólgið í þessum b-lið um ákvæði um frádrátt vaxtakostnaðar, þ.e. mér skilst að þar sé verið að festa í lög einhvers konar undanþágu fyrir þetta fyrirtæki, að vaxtakostnaðurinn sem þetta fyrirtæki ber sé undanþeginn lögum um tekjuskatt sem mér sýnist þá að séu einhverjar ívilnanir. Ég held að við þurfum líka að vita hversu miklar ívilnanir það eru sem kæmu í gegnum þennan b-lið.

Síðan held ég að það sé líka mikilvægt að við fáum að vita það, og auðvitað eru þetta atriði sem iðnaðarnefnd, þegar hún fer að fjalla um málið, kemur til með að spyrja eftir, á hvern hátt þessi ákvæði sem hér um ræðir eru í tilfelli Fjarðaáls. Við munum það öll sem fórum í gegnum þá umræðu á Alþingi árin 2003–2004, þegar verið var að koma á lögunum um þá álverksmiðju, að eitt af því sem við þá ræddum voru einmitt ívilnanir, sértækar ívilnanir, fyrir það fyrirtæki. Ég minnist þess ekki að það hafi komið hér inn til okkar einhver ákvæði sem aflétti þeim ívilnunum. Þá kemur upp þessi spurning: Er það nýja fyrirtæki á þessum vettvangi álbræðslu með eitthvert sérstakt skattumhverfi sín fyrstu ár? Og hvað á það þá að vara lengi? Er gert ráð fyrir að það vari jafnlengi og sértæku aðgerðirnar hafa varað fyrir Norðurál og fyrir Alcan í Straumsvík?

Hér þurfum við skýrari svör. Ég held að Alþingi þurfi að fá að heyra það frá hæstv. ráðherra hvort verið sé að búa álfyrirtækjunum sömu umgjörð með tilliti til skattalöggjafar og önnur fyrirtæki þurfa að búa við eða ekki. Þá verður öll skattalöggjöf að vera þar undir í svarinu, fasteignagjöldin sömuleiðis.

Eins og ég segi hef ég ákveðnar efasemdir sem ég held að við þurfum að fá á hreint og hreinsa áður en 1. umr. um þetta mál lýkur.