133. löggjafarþing — 22. fundur,  7. nóv. 2006.

álbræðsla á Grundartanga.

93. mál
[15:17]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Ríkisstjórnin hefur lýst því yfir að hún stefni að því með almennum aðgerðum að þroska svo viðskipta- og skattumhverfið á Íslandi að það sé samkeppnishæft á sem allra flestum sviðum og með sem allra bestum og glæsilegustum hætti. Þess vegna er það viðhorf hennar að stefna að því að úr sértækum aðgerðum, sem hér voru ræddar líka áður undir fyrra dagskrárlið, dragi og að þær hverfi smám saman.

En við gerum okkur hins vegar grein fyrir því að við erum bundin af gildandi skuldbindingum í viðskiptalegum samningum að sjálfsögðu og fjárhagslegum samningum og verðum alltaf að geta gripið til aðgerða ef við teljum sérstakar ástæður til, samanber það sem rætt var undir síðasta dagskrárlið.