133. löggjafarþing — 22. fundur,  7. nóv. 2006.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins.

279. mál
[15:37]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér fyrirhugaðar breytingar á lögum um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins. Ég verð að endurtaka þá skoðun mína sem ég hef margoft sagt að ég hef enga trú á því að opinberir starfsmenn geti stundað nýsköpun. (Gripið fram í: Af hverju?) Vegna þess að menn sækja í starf hjá ríkinu til þess að leita öryggis, það er meira öryggi hjá ríkinu en úti á hinum almenna markaði og nýsköpun er í eðli sínu áhætta. Ég hef enga trú á því enda hefur sagan kennt okkur það. Þeir fjármunir sem settir hafa verið í opinbera nýsköpun hafa allir gufað upp og munu allir gufa upp. Þessi ofurtrú á ríkið, að það geti gert eitt og annað, held ég að sé ekki á réttum stað.

Nýsköpun er í eðli sínu þannig að einhver aðili, yfirleitt einstaklingur, vill gera eitthvað sniðugt, honum dettur eitthvað í hug og hann er vakandi og sofandi að koma því í framkvæmd. Við gerum honum hins vegar afskaplega erfitt fyrir, frú forseti. Hann þarf fyrst að stofna hlutafélag til að takmarka áhættu sína og fjölskyldu sinnar og fyrir það látum við hann borga, það er skattur á nýsköpun. Gjaldið fyrir stofnun hlutafélaga er skattur á nýsköpun, því að það er mikill hagnaður af þeirri starfsemi fyrir ríkið. Þetta mætti lækka að ósekju.

Þegar þessi einstaklingur byrjar að starfa hellast yfir hann eftirlitsnefndir, heilbrigðiseftirlit, vinnueftirlit, jafnréttiseftirlit og ég veit ekki hvað og hvað. (Gripið fram í: Allt sem þú hefur samþykkt.) Já, já. Allt er þetta kostnaður, maðurinn byrjar á því að borga alls konar kostnað áður en hann sér nokkra von til þess að hafa tekjur af starfseminni. (Gripið fram í.) Þetta mundi ég vilja takmarka.

Varðandi frammíköllin hérna, frú forseti, þá vill svo til að ég hef sjálfur stundað nýsköpun. Ég stofnaði einu sinni fyrirtæki sem nú er orðið stærsta fyrirtæki Íslands. (Gripið fram í: Og flúðir í öryggið.) Nei, ég elti skattana mína.

Þetta mætti laga. Svo vinnur maðurinn hjá fyrirtækinu, nánast alltaf kauplaust af því að það eru engar tekjur af því, þá er honum reiknað endurgjald samkvæmt skattalögum. Þetta mætti líka laga, t.d. með því að ríkið leyfði honum að skulda þennan skatt eða fyrirtækinu og ef vel gengur borgi hann skattinn en ef illa gengur þá borgi hann ekki skatt af laununum sem hann aldrei fékk. Í dag þarf hann að borga skattinn þótt hann sé ekki búinn að sjá launin og sjái þau kannski aldrei.

Við erum með alls konar kvaðir á nýsköpun og það er ekkert verið að breyta því. Menn eru ekki að breyta almennum aðstæðum nýsköpunar, ég mundi vilja að menn gerðu það. Menn eru með alls konar styrki til nýsköpunar, nýsköpunarsjóði og nýsköpunarnefndir og ég veit ekki hvað það heitir allt saman sem búið er að byggja í kringum þetta. Og allt þetta hefur ekki gefið neitt, bara tap.

Svo á ráðherra að taka ákvörðun um bisness samkvæmt þessu frumvarpi, sjálfur ráðherrann er sem sagt kominn í hörkubisness í nýsköpun. Ég veit að það er áhætta að vera ráðherra, menn geta misst starfið af því að nýr meiri hluti verður á Alþingi eða eitthvað svoleiðis eða prófkjörin fara illa. Ég hugsa að þingmenn séu yfirleitt áhættuglaðir menn (Gripið fram í: Framsóknarmenn.) þannig að kannski eru ráðherrar færir til þess að taka ákvörðun um nýsköpun. En þeir standa og falla ekki með henni, það er vandinn.

Sá sem stendur í nýsköpuninni, uppfinningamaðurinn eða frumkvöðullinn, stendur og fellur með sinni nýsköpun. Hann er vakandi og sofandi, hann vakir á nóttunni við að finna lausnir á vandamálum sem upp koma, þar á meðal að greiða skatt af launum sem hann hefur ekki fengið.

Af fenginni reynslu, þar sem ríkið hefur verið að tapa á nýsköpun endalaust, þá er sett inn í 7. gr. ákvæði um að eigið fé skuli vera 3 milljarðar hvernig sem fer, 3 milljarðar eiga að vera verðtryggðir. Hvað þýðir þetta á íslensku? Þessa peninga þarf að leggja fyrir hjá ríkinu. Það er enginn annar aðili sem tryggir stjórninni aðra eins ávöxtun að hún sé stikkfrí og skotheld. Þetta þarf að vera með ríkisávöxtun, það er eina ávöxtunin sem er 100% örugg. Stjórnin verður samkvæmt greininni að viðhalda peningunum, samkvæmt lögunum á hún að viðhalda peningunum. Hún verður því að leggja þá fyrir hjá ríkinu. Ríkið ætlar sem sagt að fá þá peninga lánaða sem það leggur fram, yndislegt. Það sem Nýsköpunarsjóður hefur til ráðstöfunar eru vextir af þessum peningum og af því að þetta er ríkistryggt og verður að vera ríkistryggt, stjórnin mun ekki þora neitt annað, þá eru þetta u.þ.b. 150 milljónir. Af hverju í ósköpunum leggja menn bara ekki 150 milljónir á ári í þessu vitleysu í staðinn fyrir að gera þetta svona?

Menn eru að fara frá ýmsu sem hefur verið í gangi í þessu, eins og t.d. tryggingardeild útflutnings. Í flestum löndum er það á vegum einkaaðila að tryggja útflutning. Bankarnir hafa séð um þetta, sérhönnuð fyrirtæki sjá um þetta víða úti í heimi. Hér fór ríkið út í þetta og gafst eflaust illa. Svo var líka lögð niður vöruþróunar- og markaðsdeild. Það er ýmislegt jákvætt að gerast, ég segi það ekki, menn eru að læra pínulítið af reynslunni þó að þeir hafi ekki enn þá uppgötvað að ríkið eigi ekki að standa í nýsköpun. Sjóðurinn hættir að veita lán og ábyrgðir, það er ágætt, hann ætlar að taka þátt í bisnessnum með öðrum og ekki meira en 50%.

Ég held að menn ættu að hætta þessu alveg, standa ekki í slíku. Það ætti að skoða hvort ekki mætti búa til almennar reglur sem styðja nýsköpun, t.d. að menn þurfi ekki að borga reiknað endurgjald af nýsköpun, að allur reglugerðarkostnaðurinn við það sé lánaður, að ekki þurfi að borga hann fyrr en viðkomandi rekstur fer að bera sig. Hugsanlega mætti lækka gjald á stofnun fyrirtækja, lækka það niður í kostnaðarverð eins og það er víðast í heiminum. Ég held að það kosti 70 dollara í Bandaríkjunum að stofna nýtt fyrirtæki og það tekur tvo klukkutíma frá byrjun ferils til enda. Hér er þetta mikil aðgerð. Við ættum að taka upp mikla einföldun, gera stofnun hlutafélaga miklu einfaldari og liprari og láta það bara kosta eins og það kostar, svona 5–7 þús. kr. Við ættum að reyna að skoða hvort við getum ekki aðstoðað frumkvöðlana og uppfinningamennina þannig að ríkið sé ekki að lesta þá í byrjun.

Það er nefnilega heilmikil frumkvöðlahefð með þjóðinni, íslensk þjóð virðist hafa óskaplega mikið frumkvæði. Ég held að við ættum að styðja það með öðrum hætti en að láta opinbera starfsmenn taka þátt í stofnun hlutafélaga. Bankakerfið á að sjá um það með lánveitingum, áhættuglaðir einstaklingar sem vilja hætta fé sínu eiga að gera það. Til þess þarf að skoða hvers vegna enginn vill fjárfesta í sprotafyrirtækjum. Hæstv. ráðherra ætti að skoða hvernig á því stendur að þeir aðilar sem voru þó í sprotafyrirtækjum hér á landi fyrir 10–15 árum eru hættir því. Hann ætti að skoða það. Það er líklega vegna þess að flestir þeirra töpuðu nákvæmlega eins og ríkið. Sumir hafa reyndar staðið sig vel og sum fyrirtæki eru orðin óskaplega stór. Þetta er því ekki alslæmt. En ég hef enga trú á því að opinberir starfsmenn, sem eðli máls samkvæmt leita í öryggi, eru með örugg lífeyrisréttindi, mjög örugg sumir hverjir í B-deildinni, geti staðið í áhætturekstri eins og nýsköpun er og mun alltaf verða.